Þetta er á meðal þess sem stéttarfélagið VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) munu leggja áherslu á í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins í kjaraviðræðum í haust.
Kjarasamningur VR og LÍV rennur út 1. nóvember næstkomandi. Framundan eru því viðræður um nýjan kjarasamning. Í kröfugerð félaganna, sem birt var á vef VR í dag er komið innn á helstu áhersluatriði félaganna í kjaraviðræðunum.
Lagt er til að gerður verði þriggja ára samningur sem gildi frá 1. nóvember til 30. október 2025.

Á meðal þess sem VR og LÍV hyggjast legga áherslu á er stytting vinnuvikunnar niður í fjóra daga, að vinnuvikan verði 32 stundir. Í Lífskjarasamningunum sem undirritaður var 2019 var samið um að starfsmenn ættu rétt á viðræðrum um vinnutímastyttingu niður í 36 tíma, samhliða niðurfellingu kaffitíma.
„Styttingin tókst vel til og var almenn ánægja með hana meðal félagsfólks. VR og LÍV telja mikilvægt að fyrirtæki nýti tækifæri sem skapast í kjölfar hagræðingar sem sjálfvirknivæðing og tækniframfarir stuðla að til þess að stytta enn frekar vinnuviku starfsfólks,“ segir í kröfugerðinni.
Þrjátíu daga orlof og orlofsrétturinn verði allt að tvö ár í senn
Þá vilja félögin einnig að félagsmenn öðlist rétt til þrjátíu daga orlofs á hverju orlofsári. Lágmarksorlof er nú 24 tímar. Í kröfugerðinni er vísað í breytingar á orlofsrétti hjá hinu opinbera. Það kalli á endurrskoðun á orlofsrétti á almennum vinnumarkaði.

„VR og LÍV gera þá kröfu að allt félagsfólk eigi rétt til 30 orlofsdaga á orlofsárinu.
VR og LÍV krefjast þess jafnframt að orlofsréttur verði rýmkaður þannig að orlofsnýting sé allt að tvö ár í senn. Ef ekki verður við því komið að nýta orlofið innan þess tíma, verði ónýtt orlof gert upp við starfsfólk áður en nýtt tímabil hefst,“ segir í kröfugerðinni.
Verðtrygging verði afnumin og skattar og álögur lækkaðar
Að auki er kallað eftir því að stjórnvöld komi að gerð kjarasamning á almennum markaði. Slíkt sé óhjákvæmilegt. Raunar segir í kröfugerðinni að stjórnvöld verði að koma að samningaborðinu.
VR og LÍV gera þá kröfu að afnemi verðtryggingu á neytendalánum, lækki álögur og skatta á launafólk og lækki einnig virðisaukaskatt á nauðsynjavörum.
Þá sé þörf á þjóðarsátt á húsnæðismarkaði.
„VR og LÍV gera þá kröfu að þak verði sett á leigu, ungu fólki auðvelduð fyrstu kaup með auknum stuðningi frá hinu opinbera og lóðaframboð aukið verulega með aðkomu sveitarfélaga. Framboð húsnæðis, hvort heldur er til eignar eða leigu, er í engu samræmi við eftirspurn og fáir sem geta komið sér þaki yfir höfuðið.“
Lesa má kröfugerð VR í heild sinni hér.