Það var lítið flæði á leiknum framan af vegna mikilla meiðsla. Breiðablik þurfti að gera eina skiptingu í fyrri hálfleik og aðra í hálfleik á meðan Víkingar þurftu að gera tvær í fyrri hálfleik.
Undir lok fyrri hálfleiks átti Dagur Dan Þórhallsson frábæran sprett á hægri vængnum. Viktor Örlygur Andrason, sem var kominn í vinstri bakvörð vegna meiðsla Loga Tómassonar kom engum vörnum við og Dagur Dan renndi boltanum á varamanninn Sölva Snæ Guðbjargarson sem kom Blikum yfir, staðan 1-0 í hálfleik.
Þegar klukkustund var liðin jöfnuðu gestirnir metin. Danijel Dejan Djuric, sem er uppalinn í Breiðablik en leikur nú með Víking, fann Ara Sigurpálsson úti vinstra megin. Ari kom inn á hægri fótinn og lét vaða á markið. Boltinn fór af stönginni og út í teiginn þar sem Danijel var fyrstur að átta sig og negldi boltanum í netið.
Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur. Víkingum tókst ekki að nýta sér að það vera manni fleiri síðasta stundarfjórðung leiksins eftir að Damir Muminovic fékk sitt annað gula spjald undir lok leiks.
Breiðablik er á toppi Bestu deildarinnar með 39 stig eftir 17 leiki. Þar á eftir kemur KA með 33 og svo Víkingur með 31 en Íslandsmeistararnir eiga leik til góða.