Innlent

Stórt hlutfall íslenskra lækna útskrifast erlendis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Læknadeild HÍ vildi gjarnan taka inn fleiri nema en Landspítalinn ræður ekki við meiri fjölda í klínískt nám.
Læknadeild HÍ vildi gjarnan taka inn fleiri nema en Landspítalinn ræður ekki við meiri fjölda í klínískt nám. Vísir/Vilhelm

Tæplega helmingur lækna frá Íslandi útskrifast nú úr grunnámi við erlenda háskóla.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. 

Þar segir að samkvæmt upplýsingum frá Læknafélagi Íslands hafi 49 læknar útskrifast frá Háskóla Íslands vorið 2020 en 34 íslenskir læknar útskrifast frá háskólum erlendis. Í fyrra útskrifuðust 50 læknar frá HÍ en 35 erlendis og í vor úskrifaði HÍ 32 lækna á meðan 26 hlutu prófgráðu í útlöndum.

Áætlað er að 90 læknar þurfi að útskrifast á ári hverju til að tryggja nýliðun í stéttinni.

Um það bil 60 nemendur eru nú teknir inn í læknadeild Háskóla Íslands á hverju ári en umsækjendur eru töluvert fleiri. 

Þórarinn Guðjónsson, forseti læknadeildar HÍ, segir gæta ákveðins misskilnings; vandinn sé ekki sá að læknadeildinn vilji ekki taka fleiri inn heldur sé hreinlega ekki geta fyrir hendi til að taka fleiri inn í klínískt nám, sem fer fram á Landspítalanum. 

Verklega kennslan útheimti mikinn mannafla, sem sé ekki til staðar á spítalanum.

„Geta spítalans til að sinna þessari kennslu ákvarðar í rauninni hversu marga nemendur við getum tekið inn í læknanámið á hverju ári. Það er einfaldlega ekki aðstaða á spítalanum til að taka á móti fleiri nemendum í þessar klínísku greinar, eins og staðan er nú,“ segir Þórarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×