Þetta kom fram í dómsskjölum sem opinberuð voru í gærkvöldi og sagt er frá í frétt AP fréttaveitunnar en einnig kemur fram að ekki hafi verið ákveðið hvort höfða eigi mál gegn Trump.
Fyrst vilja rannsakendur ræða við Trump sjálfan, Donald Trump yngri og Ivönku Trump, börn hans, vegna rannsóknarinnar.
Þeim var öllum stefnt fyrr í mánuðinum með því markmiði að fá þau til að ræða við rannsakendur. Verjendur forsetans fyrrverandi segja málið gegn honum eiga rætur í pólitík og hafa varist öllum tilraunum til að fá þau til að bera vitni.
Rannsókn Letitia James, ríkissaksóknara, er ekki glæparannsókn og finni hún vísbendingar um að brot hafi verið framin getur hún höfðað mál. Umdæmasaksóknari Manhattan er þó einnig með fyrirtæki Trumps til rannsóknar en sú rannsókn er glæparannsókn og kemur Letitia James einnig að henni.
Sjá einnig: Trump og tveimur börnum hans stefnt
Báðar rannsóknirnar á Trump og fyrirtæki hans beinast að því hvernig Trump hafi verðmetið eignir sínar í gegnum árin. Þær snúa að því hvort Trump hafi blekkt banka og skattyfirvöld um raunveruleg verðmæti eigna fyrirtækisins. Hann hafi ýmist ýkt virði þeirra til að fá hagstæðari lán eða gert lítið úr þeim til að komast hjá skattgreiðslum.
Letita James, ríkissaksóknari, sagði á Twitter í nótt að umtalsverð sönnunargögn hefðu fundist um að áðurnefndir þremenningar hefðu komið að málunum sem um ræðir og því væri nauðsynlegt að ræða við þau.
We have uncovered significant evidence indicating that the Trump Organization used fraudulent and misleading asset valuations on multiple properties to obtain economic benefits, including loans, insurance coverage, and tax deductions for years.
— NY AG James (@NewYorkStateAG) January 19, 2022
Í áðurnefndum dómsskjölum kemur meðal annars fram að fyrirtæki Trumpms hafi verðmetið fjölmargar eignir með skringilegum forsendum. Má þar nefna að fyrirtækið hafi bætt fimmtán til þrjátíu prósent við eignir sem báru nafn Trumps, þó komið hafi fram í skjölum fyrirtækisins að það hafi ekki átt við.
Í einu tilfelli var eign fyrirtækisins í skrifstofubyggingu í New York metin af fyrirtækinu sjálfu á 525 til 602 milljónir dala. Það var tvisvar til þrisvar sinnum hærra en mat sérfræðinga Capital One.
Þá var íbúð sem Ívanka Trump leigði af fyritækinu metin á 25 milljónir dala en á sama tíma var henni boðið að kaupa íbúðina á 8,5 milljónir.