„Myglan er þó nokkur við útveggi í þessari fyrstu byggingu, þar sem áttundi bekkur var. Það er verið að bregðast við því og verið að fræsa og hreinsa upp úr gólfum og stefnt að því að klæða húsið á næsta ári til að forðast að þetta gerist aftur,“ segir Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla.

Skólinn er þar af leiðandi að miklu leyti innsiglaður en mygla fannst í álmu níundu bekkinga í síðustu viku og í álmu áttundu bekkinga fyrr í þessum mánuði. Myglan reyndist meiri en talið var í fyrstu og borist hafa þó nokkrar kvartanir, flestar frá starfsfólki, sem hefur kennt sér meins og veikst vegna myglu.
Þegar fréttastofu bar að garði voru nemendur nokkuð sáttir við fyrirkomulagið og fannst raunar nokkuð spennandi að fá að skipta um umhverfi en í Háskólabíói fá þeir smjörþefinn af því að sitja fyrirlestra í háskóla.

Tíundu bekkingar sitja eftir í Hagaskóla en þeim finnst það sömuleiðis fínt – meira næði og ágætt að elsti árangurinn fái að vera allur saman. Þetta breyti ekki miklu enda vanir hólfaskiptingum í heimsfaraldri.
ngibjörg segir að fyrirkomulagið verði með þessum hætti, að minnsta kosti að jólum. Óvissan sé vissulega óþægileg en að allt sé gert til að koma hlutum í eðlilegt horf.
„Þetta húsnæði er afskaplega dýrmætt. Eins og byggingin sem áttundi bekkur var í er afskaplega glæsileg og falleg bygging þannig að það er til mikils að vinna að koma henni í samt lag. Ég hef aðeins aðra skoðun á elstu álmunum tveimur en ég myndi vilja sjá þær fara í burtu,“ segir hún.