Undanúrslitaleikur Vestra og Víkings í Mjólkurbikar karla í fótbolta fer því ekki fram á Ísafirði heldur 450 kílómetrum sunnar; á Meistaravöllum KR-inga í Vesturbæ Reykjavíkur. KR-ingar tóku vel í beiðni Vestramanna um að spila á vellinum - leik sem skiptir miklu máli fyrir KR því ef Víkingur verður bikarmeistari kemst KR í Evrópukeppni.
Snjór hefur verið yfir Olísvellinum á Ísafirði undanfarið og ekki hægt að æfa né spila á honum. Heimamenn freistuðu þess að blása snjónum af en hann var of þéttur í sér. Í hádeginu voru svo gerðar tilraunir með að moka snjónum í burtu með lítilli gröfu en fljótlega kom í ljós að völlurinn kæmi illa út úr því.
Vestri hafði frest þar til annað kvöld með að meta hvort hægt yrði að spila á Olísvellinum en nýtti frestinn ekki til fulls þar sem nú er alveg ljóst að völlurinn verður ekki leikhæfur.

Vestramenn æfa í Borgarnesi í dag og á morgun en æfa svo í Reykjavík á föstudaginn áður en þeir mæta Víkingi í Frostaskjóli á laugardaginn klukkan 14:30.
Í hinum undanúrslitaleiknum mætast ÍA og Keflavík klukkan 12 á laugardaginn. Báðir leikirnir eru í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Úrslitaleikurinn er svo á Laugardalsvelli 16. október.

Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.