Skoðun

Spilling er lævís og lipur

Árni Múli Jónasson skrifar

Spilling þrífst á kúgun og þöggun og grefur þannig undan skoðana- og tjáningarfrelsinu og lýðræðinu. Hún byggist á mismunun fólks og fyrirtækja og leiðir til enn meiri mismununar. Hún er illvíg meinsemd sem skaðar hagsmuni almennings á öllum sviðum þjóðlífsins. Spilling gagnast þeim auðugu og valdamiklu, sem reyna því jafnan að verja hana og viðhalda og hún bitnar alltaf mest og verst á þeim sem valdlausastir eru, minnst fá og ekkert eiga.

Spilling er misbeiting valds í þágu sérhagsmuna og valdi er misbeitt með mjög margvíslegum hætti. Þar sem atvinnulíf er einhæft, eins og víða er hér á landi, ráða eigendur og stjórnendur stórra fyrirtækja því hverjir fá störfin í samfélaginu og hverjir ekki, hverjir fá launahækkun og hverjir ekki og hverjir eru reknir og hverjir ekki. Þetta vita allir sem þar búa og þeir sem valdið hafa, í krafti auðs, þurfa ekki að segja þetta upp hátt og enn síður að hóta einhverjum með berum orðum því hver treystir sér til að gagnrýna fyrirtæki, eigendur þess eða stjórnendur þegar hann veit að það getur kostað hann starfið og að það er enga aðra vinnu að hafa? Hvernig á hann þá að framfleyta sér og fjölskyldu sinni?

Fólk á þannig ekki aðeins störf sín og framfærslu undir náð og miskunn stjórnenda fyrirtækjanna, heldur þarf það í raun að þola mjög miklar skerðingar á skoðana- og tjáningarfrelsinu, mannréttindum sem eru forsenda og súrefni heilbrigðs lýðræðis í hverju samfélagi. Og það er ekki einungis starfsfólkið sem þarf að þola misbeitingu þessa valds sem byggist á peningum og einokun. Þeir eiga nefnilega ekki heldur von á góðu sem voga sér að stofna fyrirtæki sem stórfyrirtækin telja að geti mögulega tekið svolítinn gróða frá þeim.

Sveitarstjórnarfólk, sem íbúarnir hafa kosið til að gæta hagsmuna sinna, veit líka mjög vel hvaða áhrif það hefur á atvinnu og framfærslu íbúanna og tekjur sveitarfélagsins ef eigendum og stjórnendum stórfyrirtækjanna líkar ekki það sem sveitarstjórnirnar segja eða gera og ákveða því að flytja rekstur sinn burt úr byggðarlaginu. Fyrirtækin þurfa ekki að segja það upp hátt og enn síður að hóta því berum orðum, þó að sum þeirra geti ekki stillt sig um að sýna þannig vald sitt.

Þessi staða leiðir til misbeitingar valds í þágu sérhagsmuna. Þetta ofurvald stórfyrirtækja stendur byggðunum fyrir þrifum og er gríðarlega óréttlátt gagnvart íbúunum, óheilbrigt og ólíðandi. Sósíalistaflokkur Íslands ætlar að losa fólk og samfélög úr þessu kyrkingartaki með því að ná valdinu frá stórfyrirtækjunum og færa það til fólksins og hefur nú kynnt tilboð sitt til kjósenda um aðgerðir til að uppræta spillingu: Ráðumst að rótum spillingarinnar.

Taktu þessu tilboði og kjóstu Sósíalistaflokkinn!

Höfundur situr í öðru sæti á lista Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×