Til stóð að ákvörðun yrði tekin eigi síðar en 21. apríl næstkomandi, en í ljósi þess að yfir níu þúsund umsagnir bárust frá almenningi hefur ákvarðanatökunni verið frestað. Stefnt er að því að því að ákvörðun liggi fyrir á komandi vikum.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er þetta stærsta mál sem eftirlitsnefndin hefur haft til umfjöllunar síðan hún hóf störf á síðasta ári. Tuttugu eiga sæti í nefndinni sem var sett á fót fyrir tilstuðlan Mark Zuckerberg forstjóra, og hefur hún gjarnan verið kölluð Hæstiréttur Facebook.
Nefndin er sjálfstæð eining en nefndarmenn fá laun greidd frá Facebook. Meðal þeirra sem skipa nefndina eru blaðamenn, aðgerðasinnar, lögfræðingar og fræðimenn. Meðal mála sem hún hefur tekið til umfjöllunar er til að mynda myndband um lækningar við kórónuveirunni og tilvitnun í Jósef Göbbels sem var fjarlægð af aðgangi eins notanda.
Fallist nefndin á það að Trump fái aðgang að miðlum sínum aftur nær það til bæði Facebook og Instagram, sem er í eigu Facebook. Forsetinn fyrrverandi er þó bannaður til frambúðar á Twitter.