Fótbolti

Brasilísk félög mega nú bara reka einn þjálfara á ári: „Endir þjálfaradansins“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rogerio Caboclo, forseti brasilíska sambandsins, sést hér þegar Pia Sundhage var ráðin landsliðsþjálfari kvenna.
Rogerio Caboclo, forseti brasilíska sambandsins, sést hér þegar Pia Sundhage var ráðin landsliðsþjálfari kvenna. EPA-EFE/Marcelo Sayao

Fótboltafélögin í Brasilíu hafa samþykkt nýja og sögulega reglu brasilíska knattspyrnusambandsins sem takmarkar það hversu oft félögin geti rekið þjálfarana sína á tímabili.

Það hefur augljóslega verið heitt undir knattspyrnuþjálfurum í brasilísku deildinni síðustu misseri og þetta er tilraun til að koma með smá stöðugleika inn í deildina.

Hingað til hafa ekki verið neinar hömlur á því hversu oft félögin geta rekið þjálfara eða hversu oft þjálfarar geti sagt starfi sínu lokið. Nú verður breyting á því.

Hvert félag má núna bara reka einn þjálfara á tímabili og hver þjálfari má bara segja einu sinni starfi sínu lausu á sömu leiktíð.

Taki félag upp á því að reka sinn annan þjálfara áður en tímabilið klárast þá má bara sá taka við liðinu sem er þegar starfsmaður félagsins. Sá hinn sami verður að hafa verið hjá félaginu í að minnsta kosti sex mánuði.

Rogerio Caboclo, forseti brasilíska knattspyrnusambandsins, segir að þessu regla sé góð fyrir bæði félögin og þjálfarana.

„Þetta mun stuðla frekar að þroskuðu og fagmannlegu sambandi sem síðan skilar lengri og stöðugri vinnu. Þetta er endir þjálfaradansins í brasilískum fótbolta,“ sagði Rogerio Caboclo.

Rök brasilíska sambandsins er að það eigi að gilda sömu lög um þjálfara og leikmenn þegar kemur að því að skipta um félög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×