Liverpool er með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og ofurtölvan svokallaða telur 60,32 prósent líkur á því að Rauði herinn standi uppi sem Englandsmeistari í vor.
Manchester City, sem hefur unnið ensku úrvalsdeildina undanfarin fjögur ár, á 34,29 prósent líkur á að verða meistari fimmta árið í röð samkvæmt ofurtölvunni. Arsenal á svo aðeins 4,98 prósent líkur á því að vinna ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn síðan 2004.
Samkvæmt útreikningum ofurtölvunnar er langlíklegast að Liverpool, City, Arsenal og Chelsea komist í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Manchester United á aðeins 2,18 prósent líkur á því.
Ofurtölvan telur yfirgnæfandi líkur á því að Southampton og Ipswich Town falli en baráttan um að forðast þriðja fallsætið standi á milli Leicester City og Wolves.