Fótbolti.net greindi frá þessu um síðustu helgi en nú hefur þetta fengist staðfest.
Ingvar stóð að venju vaktina í marki Víkings er liðið tók á móti Keflavík í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins. Ingvar og félagar virtust vera sigla áfram í undanúrslit en staðan var 3-1 þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.
Joseph Arthur Gibbs skoraði hins vegar tvívegis fyrir gestina frá Keflavík og lokatölur því 3-3. Í stað þess að framlengja var farið beint í vítaspyrnukeppni. Fór það svo að Ingvar varði fyrstu spyrnu Keflvíkinga en lenti undarlega eftir að hafa skutlað sér og viðbeinsbrotnaði. Þetta staðfesti Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, endanlega í hlaðvarpsþætti Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football, í gær.
Fór það svo að landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason fór í markið í stað Ingvars þar sem Víkingar voru búnir með skiptingar sínar og máttu ekki setja Þórð Ingason, varamarkvörð sinn, í markið. Keflavík vann á endanum vítaspyrnukeppnina 4-3 og fór áfram í undanúrslit þar sem Breiðablik bíður. Sá leikur fer fram 1. apríl í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.
Hvað varðar Ingvar þá verður hann frá í 4-6 vikur eins og áður sagði. Ef marka má orð Arnars þá er nær öruggt að Ingvar verður ekki milli stanganna er Víkingar taka á móti Keflavík í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar þann 23. apríl næstkomandi. Lærisveinar Arnars heimsækja svo ÍA þann 1. maí og Stjörnuna átta dögum síðar.
Það verður að koma í ljós hversu mörgum leikjum Ingvar missir af en sem betur fer fyrir Víkinga eiga þeir reynslumikinn varamarkvörð í Þórði Ingasyni sem fær nú tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Pepsi Max-deild hefst þann 22. apríl með leik Íslandsmeistara Vals og ÍA á Hlíðarenda. Að sjálfsögðu í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.