Fótbolti

Willum Þór: Verður ógeðslegt í dag og í kvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Willum Þór í baráttunni í dag.
Willum Þór í baráttunni í dag. Vísir/Vilhelm

Markaskorari Íslands var eðlilega, líkt og samherjar sínir, mjög svekktur eftir 2-1 tap íslenska U21 árs landsliðsins gegn Ítalíu á Víkingsvelli í dag. Leikurinn er hluti af undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sem fram fer næsta sumar. 

Willum Þór Willumsson jafnaði metin í síðari hálfleik eftir að Ítalir höfðu komist yfir í þeim fyrri. Sigurmarkið var þó Ítala og kom nánast upp úr engu undir lok leiks. Með því fer Ítalía á topp riðilsins en Ísland á þó enn fína möguleika á 2. sæti og þar með sæti í umspili um að komast á EM. Til þess þarf liðið að vinna Írland ytra en það er næsti leikur strákanna.

„Gríðarlega svekkjandi. Við spiluðum þennan leik nánast upp á tíu, vorum skipulagðir og gerðum þetta vel svo þetta er bara ógeðslega svekkjandi. Fannst við ná fínum sóknarleik, héldum kannski ekki nægilega vel í boltann sem þýðir að við erum að hlaupa mikið og verjast mikið en annars fannst mér sóknarleikurinn fínn í dag,“ sagði Willum Þór við Vísi að leik loknum.

„Mér finnst þessi leikur sýna hversu langt við erum komnir, við erum með gott lið. Þegar við erum á okkar degi er erfitt að eiga við okkur og þessi leikur sýndi það fannst mér,“ sagði Willum aðspurður hvernig það væri í rauninni að vera svekktur eftir naumt – og ósanngjarnt – 2-1 tap gegn Ítalíu.

„Þetta er bara ógeðslegt, verður ógeðslegt í dag og kvöld. Á morgun förum við að undirbúa Íra leikinn og þá verðum við búnir að gleyma þessu,“ sagði Willum um hvernig leikmenn bregðast við svona svekkjandi tapi, sérstaklega þegar það er stutt í næsta leik.

„Það verður erfiðara að eiga við þá úti heldur en hérna heima. Við komum samt fullir sjálfstrausts inn í þann leik og ætlum okkur að vinna,“ sagði miðjumaðurinn hávaxni um leikinn gegn Írlandi sem fram fer á sunnudaginn, þann 15. nóvember.

Willum spilar með BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi og því töluvert flakk á honum fyrir þessa landsleiki. Hann kvartar þó ekki.

„Lífið er gott eins og er, fyrir utan þetta tap. Það er alltaf gaman að koma og spila fyrir landsliðið, leikurinn í dag var ógeðslega skemmtilegur þrátt fyrir þetta svekkjandi tap,“ sagði markaskorari Íslands að lokum.


Tengdar fréttir

Arnar Þór: Vörnin upp á 9,9

Þjálfari U-21 árs landsliðsins sagði algjöra synd að Ísland hafi ekki fengið neitt út úr leiknum gegn Ítalíu í dag.

Jón Dagur: Ó­lýsan­legt hvað þetta er svekkjandi

Fyrirliði íslenska U21 árs landslið Íslands í knattspyrnu var eðlilega súr og svekktur er hann kom í viðtal eftir grátlegt 2-1 tap liðsins gegn Ítalíu á Víkingsvelli í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×