Skoðun

Er á­stæða til að kaupa í Icelandair?

Þórir Garðarsson skrifar

Í meira en 20 ár hefur stór hluti af minni vinnu verið að kynna og selja Ísland sem áhugaverðan áfangastað ferðamanna fyrir ferðaheildsölum og ferðaskrifstofum út um allan heim. Yfirleitt hefur áhugann á Íslandi ekki vantað. En það er ekki nóg. Viðsemjendur okkar vilja geta treyst því að ferðin gangi upp að öllu leyti. Þar kemur leiðakerfi Icelandair til skjalanna. Ferðaheimurinn þekkir Icelandair og ferðaheimurinn treystir Icelandair. Þetta hef ég upplifað aftur og aftur í samtölum við ferðasala, jafnt í Kína, Ástralíu, Brasilíu, Rússlandi, Kanada og víðar. Það að nefna Icelandair og flugtengimöguleika félagsins opnar dyr og það skiptir ferðamannalandið Ísland gríðarlega miklu máli. Án þeirrar viðurkenningar sem Icelandair hefur væri mjög erfitt að sannfæra erlendar ferðaskrifstofur um að senda viðskiptavini sína hingað.

Það trausta orðspor sem fer af Icelandair hefur tekið marga áratugi að byggja upp. Í því liggja mestu verðmæti félagsins. Í Icelandair liggja möguleikar íslenskrar ferðaþjónustu til að ná sér hratt á strik á nýjan leik. Ekkert skyndiflugfélag getur með litlum fyrirvara sett upp áætlunarferðir til 20 eða 30 áfangastaða um leið og heimsfaraldurinn rénar. En það getur Icelandair.

Í mínum huga er því engin spurning að taka þátt í hlutafjárútboði til að Icelandair geti lifað af ástandið.

Þess vegna er með ólíkindum að heyra forystufólk verkalýðsfélaga tala gegn því að lífeyrissjóðir taki þátt í hlutafjárútboðinu. Röksemdirnar eru þær að rangt hafi verið af Icelandair að auka samkeppnishæfni sína með því að semja um aukið vinnuframlag starfsmanna til að tryggja afkomu þeirra.

Í fyrsta lagi virðist þetta fólk ekki átta sig á því hversu mikinn arð sjóðirnir hafa fengið úr Icelandair í gegnum tíðina til að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga.

Í öðru lagi sýnir þessi afstaða óhuggulegt skeytingarleysi gagnvart lífsafkomu þeirra tugþúsunda sjóðsfélaga sem hafa beinar og óbeinar tekjur af komu ferðamanna.

Í þriðja lagi sýnir þessi afstaða yfirþyrmandi þekkingarleysi á sögu og hlutverki Icelandair í íslenskri ferðaþjónustu.

Þessi neikvæðni og hótanir verkalýðsforystunnar er fyrst og fremst hallærisleg fyrir hana sjálfa. En góðu fréttirnar eru auðvitað þær að fæstir taka mark á þessum úrtöluröddum. Ég fæ ekki betur séð en að mjög góð stemmning sé fyrir því að tryggja Icelandair framhaldslíf, óháð því hvað fólki finnst um stjórnendur félagsins. Enda snýst þetta ekki um persónur, heldur akkeri ferðaþjónustunnar síðastliðin 80 ár.

Eitt er víst, ég verð með og vonandi þú líka.

Höfundur er stjórnarformaður Gray Line og hluthafi í Icelandair group.




Skoðun

Sjá meira


×