Skoðun

Jafnrétti í brennidepli

Drífa Snædal skrifar

Það vakti mikla athygli þegar trúnaðarmenn Eflingar sem nú eru í verkfalli létu í sér heyra við upphaf jafnréttisþings en það var líka svo vel við hæfi. Kjarabarátta Eflingarfólks er jafnréttisbarátta, að störf kvenna verði raunverulega metin til launa eins og rætt hefur verið og ritað í áratugi. Það er ólseig hugmynd að við búum í stéttlausu samfélagi en sú hugmynd getur aðeins þrifist ef kastljósinu er aldrei beint að þeim sem hafa það verst og staðfesta stéttskiptinguna. Og stéttaskipting er kynjuð. Ég naut þess að taka þátt í einum þætti jafnréttisþings þar sem rætt var um framtíð vinnumarkaðarins og loftslagsbreytingar. Umönnunarstörf eru störf sem munu sennilega lifa af allar tæknibreytingar því ekkert kemur í staðinn fyrir mannleg samskipti og umönnun. Það er því mikilvægt, ekki bara í dag heldur fyrir ókomna tíð, að við viðurkennum kvennastörf sem alvöru störf sem hægt er að byggja afkomu sína á.

Vinnumarkaðurinn mun breytast mikið í framtíðinni og það geta verið mjög sársaukafullar breytingar. Á Spáni er undið ofan af kolavinnslu með þeim afleiðingum að þúsundir kolanámumanna missa vinnuna. Í Noregi hefur dregið verulega úr olíuiðnaðinum og vel launuðu karlastörfunum fækkar að sama skapi. Í báðum þessum tilvikum er aðkoma verkalýðshreyfingarinnar í að dempa áfallið bráðnauðsynlegt fyrir afkomu þeirra sem missa vinnuna. Hreyfingin í hvoru landi fyrir sig samdi við stjórnvöld um liðsinni við endurmenntun, uppbyggingu nýs starfsvettvangs og í tilviki kolanámumannanna, möguleikann á að komast fyrr á eftirlaun. Þessi hugmyndafræði heitir sanngjörn umskipti og er mál málanna úti í heimi í þeim breytingum sem nú eiga sér stað. Hér á landi er umræðan að hefjast enda er ný tækni víða að leysa mannshöndina af hólmi og atvinnutækifærum fer fækkandi. Jafnrétti, umhverfisáhrif og endurmat starfa verða þar lykilhugtök.

Njótið helgarinnar,

Drífa




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×