Framleiðslu- og fjölmiðlafyrirtækið 101 Productions hefur gengið frá samningum við Stöð 2 um framleiðslu á nýrri íslenskri sjónvarpsþáttaröð.
Um er að ræða mannlífsþátt með raunveruleikaívafi og fara upptökur fram meðal annars á Akureyri og í Danmörku.
Framleiðandi þáttanna er Álfheiður Marta Kjartansdóttir og leikstjóri er Jóhann Kristófer Stefánsson en við sögu í þáttunum koma m.a. íslenskar samfélagsmiðlastjörnur.
„Tökuferlið hófst á ævintýralegan hátt og maður veit í raun aldrei hverju má eiga von á í næstu tökuhrinu. Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni og óhætt að segja að áhorfendur eigi von á nokkuð óvæntu og óhefðbundnu sjónvarpsefni,“ segir Jóhann Kristófer, leikstjóri þáttanna.

Áætlað er að þættirnir hefji göngu sína á Stöð 2 vorið 2020.
Þetta er önnur sjónvarpsþáttaröðin sem 101 Productions framleiðir fyrir Stöð 2 en fyrr á árinu sýndi Stöð 2 þættina Gym í umsjón Birnu Maríu Másdóttur.
„Við fögnum því að halda góðu samstarfi áfram við Stöð 2 og þökkum það traust sem Þórhallur Gunnarsson og félagar sýna þessu unga framleiðslufyrirtæki. Við erum öll mjög spennt fyrir útkomunni með þessa þáttaseríu en segjum ekki meira um innihaldið í bili“, segir Birna Ósk Hansdóttir, framkvæmdastjóri 101 Productions.