Óhætt er að segja að ef þak hefði verið á Thorsplani hefði það rifnað af þegar að VÆB-bræður kynntu átakið, Horfumst í augu, í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ í dag enda undirtektirnar gífurlegar.
Já hálfgerður múgæsingur á svæðinu og jafnvel hægt að tala um Væbaramaníu sem fyrirsvarsmenn átaksins tóku fagnandi.
„Þetta er út frá víðtæku verkefni þar sem við erum að hvetja til þess að hafa símafrí í grunnskólum hérna í bænum með það að markmiðið að ýta undir betri líðan, samskipti og námsumhverfi barnanna,“ sagði Kristín Ólöf Grétarsdóttir, meðlimur í foreldraráði Hafnarfjarðarbæjar sem stendur á bak við framtakið.
Hvernig sýndist þér til dæmis krakkarnir taka í þetta á þessum viðburði?
„Þeim fannst brjálæðislega gaman. Þau voru alveg vel peppuð og þegar að Væb- strákarnir voru að segja: Ætlum við ekki að leggja frá okkur símana í sumar? Þá sögðu allir bara: JÁ! Svo það ætlar enginn í Hafnarfirði að vera í símanum í sumar,“ sagði Stella Björg Kristinsdóttir, forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar.
En hvað segja krakkarnir um að sleppa símanum? Sjá má þeirra skoðun á þessu öllu saman í spilaranum hér fyrir neðan. Ýmsir sögðust ætla láta símann eiga sig á meðan aðrir tvíefldust og sögðu símann koma með hvert sem er.
„Krakkar, það er sumar, við eigum að vera úti og hafa gaman. Verkefnið heitir Horfumst í augu. Við ætlum að horfast í augu, það er eye contact. Í staðinn fyrir að vera heima að skrolla. Inni í herbergi að skrolla. Maður græðir ekkert á því,“ sögðu VÆB-bræðurnir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð Matthíassynir.