Innlent

Búist við frekari rafmagnstruflunum - ástandið viðkvæmt

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Brotnir rafmagnsstaurar á Dalvíkurlínu.
Brotnir rafmagnsstaurar á Dalvíkurlínu. Vísir/Egill

Mikill viðbúnaður er bæði hjá Landsneti og RARIK vegna versnandi veðurs en rafmagn fór af um tíma á Húsavík og þar um kring í morgun. Búast má við frekari truflunum á rafmagni í dag.

Það var rétt fyrir klukkan níu í morgun sem rafmagnslaust varð á Húsavík og á svæðum þar í kring. „Staðan núna er sú að allir notendur eru komnir með rafmagn nema gróðurhúsið á Hveravöllum í Reykjahverfi en ástandið er ansi viðkvæmt. Það er ekki búið að gera við bilunina í Laxá þannig að við erum keyra kerfið eftir varaleiðum þannig að það geta auðveldlega orðið fleiri truflanir,“ segir Helga Jóhannsdóttir er framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIKS.

„Þar að auki er slæm veðurspá hvað varðar ísingu næsta sólarhringinn á þessu svæði. Það er eiginlega alveg frá Eyjafjarðarsvæðinu og austur úr til og með Vopnafirði og jafnvel inn á austurlandið þannig að við höfum ansi miklar áhyggjur af því að það verði fleiri truflanir hjá okkur næsta sólarhringinn,“ segir Helga.

Helga segir mikinn viðbúnað vegna veðursins. Það sama er uppi á teningnum hjá Landsneti. „Við erum með töluverðan viðbúnað. Við erum búin að vera með ísingarvakt á þessum svæðum og erum búin að fara í hreinsanir á þeim tengivirkjum sem við teljum að séu útsett fyrir ísingu. Við vonum bara að hérna að veðrið muni ekki leika okkur mjög illa í þetta skiptið en við erum mannskap á svæðinu ef eitthvað gerist,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×