Innlent

Útlit fyrir hlýrra veður í næstu viku

Eiður Þór Árnason skrifar
Gæsir á köldum morgni.
Gæsir á köldum morgni. vísir/vilhelm
Í dag verður nokkuð sjaldséð vestanátt með éljum eða skúrum á vestanverðu landinu en bjartviðri norðan og austanlands. Svipað veður verður á morgun, og dregur úr éljum og snýst svo smám saman til suðaustanáttar með heldur hlýnandi veðri. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Nóvember er þar sagður hafa verið í svalara lagi fram að þessu miðað við síðustu tíu ár, en útlit er fyrir hlýrra veður en í meðalári í næstu viku.

Í dag má reikna með suðvestan eða vestan þremur til tíu metrum á sekúndu dálítil él en léttskýjað verður norðan og austantil. Úrkomulítið á morgun en gengur í suðaustan fimm til þrettán metra á sekúndu suðvestantil seint annað kvöld. Hiti um frostmark við suður og vesturströndina, annars tveggja til tíu stiga frost, kaldast í innsveitum norðanlands.



Veðurhorfur á landinu næstu daga:


Á mánudag:

Suðaustan 8-15 m/s, skýjað með köflum og frost 0 til 7 stig, en 15-23 við suður- og vesturströndina og rigning með köflum og hiti 0 til 5 stig.

Á þriðjudag:

Minnkandi suðaustanátt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hlýnar lítið eitt.

Á miðvikudag:

Norðaustan 5-10 slydda eða snjókoma norðan- og austanlands, en rigning við ströndina. Léttskýjað um landið suðvestanvert. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag:

Austlæg átt, skýjað með köflum og þurrt að mestu. Hiti um og yfir frostmarki.

Á föstudag:

Útlit fyrir suðaustlæga átt með dálítilli rigningu, einkum suðaustanlands, en þurrt og bjart norðanlands. Heldur hlýnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×