Jón Axel Guðmundsson, leikmaður Davidson, er áttundi besti bakvörðurinn í bandaríska háskólaboltanum að mati Jay Bilas, eins helsta sérfræðings ESPN um háskólaboltann.
Jón Axel er að hefja sitt fjórða tímabil með Davidson. Grindvíkingurinn var valinn besti leikmaður Atlantic 10 deildarinnar í fyrra og var í liði ársins.
Á síðasta tímabili skoraði Jón Axel 16,9 stig, tók 7,3 fráköst og gaf 4,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Tímabilið 2017-18 komust Villikettirnir frá Davidson í úrslitakeppnina þar sem þeir mættu stórliði Kentucky. Jón Axel skoraði 21 stig í naumu tapi Davidson og setti niður sex þriggja stiga skot.
Að mati Bilas er Cassius Winston besti bakvörðurinn í háskólaboltanum. Hann er á sínu fjórða tímabili með Michigan State sem Bilas telur vera sterkasta liðið í háskólaboltanum í vetur.
Fyrsti leikur Davidson á tímabilinu er gegn Auburn í kvöld.

