Körfubolti

Stjarnan versta skotliðið: „Komið inn í hausinn á ein­hverjum“

Sindri Sverrisson skrifar
Stjörnumenn eru neðstir á lista yfir þriggja stiga skotnýtingu í Bónus-deildinni.
Stjörnumenn eru neðstir á lista yfir þriggja stiga skotnýtingu í Bónus-deildinni. vísir/Guðmundur

Íslandsmeistarar Stjörnunnar eru með verstu, eða eiginlega langverstu, þriggja stiga skotnýtinguna í Bónus-deild karla í körfubolta. Málið var til umræðu í Körfuboltakvöldi á föstudaginn.

Stjarnan hefur hingað til hitt úr 24,4% af þriggja stiga skotum sínum, eða innan við einu af hverjum fjórum. Næsta lið er botnlið Ármanns með 28,8% en önnur hafa hitt úr að minnsta kosti 31% þriggja stiga skota sinna.

Stefán Árni Pálsson spurði sérfræðinga sína hvernig staðið gæti á þessu og hér að neðan má sjá brot úr Körfuboltakvöldi, á Sýn Sport Ísland.

Klippa: Meistararnir með verstu nýtinguna

„Þetta er bara mjög góð spurning. Ég held að partur af þessu sé eitthvað andlegt,“ sagði Teitur Örlygsson á meðan að skoðuð voru sláandi dæmi um þriggja stiga skot úr tapi Stjörnunnar gegn Þór í Þorlákshöfn.

„Þetta er nokkuð mikið af tiltölulega opnum skotum. Auðvitað eru hvorki Seth [LeDay] né Bjarni [Guðmann Jónsson] einhverjir Steph Curry en þeir eiga að geta sett þessi skot niður með ágætri prósentu,“ sagði Hlynur Bæringsson.

„Ég á í basli með að segja hvað veldur. Þetta getur verið eitthvað tímabundið, einhverjar tilviljanir, en ég held að þetta sé eitthvað komið inn í hausinn á einhverjum,“ sagði Hlynur og þeir Teitur veltu fyrir sér hvort að leikmenn Stjörnunnar væru farnir að ofhugsa hlutina einhvern veginn. Líklega væri það fínt fyrir Stjörnuna að nú væri komið landsleikjahlé.

Umræðuna má sjá í heild hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×