Handbolti

„Mér finnst þetta vera hræði­legt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frönsku landsliðskonurnar spila oft í hvítum stuttbuxum.
Frönsku landsliðskonurnar spila oft í hvítum stuttbuxum. Getty/Marco Wolf

Heimsmeistaramót kvenna í handbolta er farið af stað og þar munu leikmenn þurfa að spila í umdeildum stuttubuxum.

Alþjóðahandboltasambandið var ekki tilbúið að hlusta á áhyggjur handboltakvenna og þær eru því skyldaðar að spila í buxum sem flestir vilja ekki sjá.

Hvítu stuttbuxurnar verða áfram notaðar, þrátt fyrir að meðal annars sænsku og norsku HM-leikmennirnir hafi sérstaklega beðið um að þær yrðu teknar úr notkun.

Mjög ósátt

Sérfræðingur Radiosporten í handbolta var mjög ósáttur með þessa niðurstöðu.

Fyrr í haust sendu skandinavísku samböndin sameiginlega beiðni til alþjóðasambandsins – með kröfu um að losna við hvítu stuttbuxurnar fyrir HM – til að forðast óþægindi og óöryggi hjá leikmönnum sem eru á blæðingum.

Aftonbladet sagði frá því að beiðnin hafi ekki fengið hljómgrunn, með þeim rökum að krafan hafi verið sett fram of seint til að hægt væri að gera reglubreytingu fyrir HM.

Handboltasérfræðingurinn og fyrrverandi landsliðskonan Annika Wiel Hvannberg leggur áherslu á að óskin sé ekki ný af nálinni og kaupir ekki skýringuna.

„Mér finnst þetta vera hræðilegt. Ég ótrúlega pirruð,“ sagði Hvannberg í Morgonstudion á SVT.

Af hverju er þetta umræðuefni?

„Það er svo fáránlegt og hræðilegt að þetta skuli yfirhöfuð vera gert að umræðuefni,“ segir Hvannberg og bætti við: „Við erum með konur sem spila á hæsta stigi, eiga þær að þurfa að finna fyrir óþægindum við að spila leik vegna hættu á að það blæði í gegn?“ sagði Hvannberg.

Norskir og sænskir fjölmiðlar hafa skrifað um málið og fengið viðbrögð frá landsliðskonum sínum sem eru allar á sama máli. Þær ættu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að vera í hvítum buxum þegar tíðarhringurinn byrjar óvænt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×