Körfubolti

„Við vorum teknir í bólinu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Guðjónsson og hans menn sáu aldrei til sólar í kvöld. 
Arnar Guðjónsson og hans menn sáu aldrei til sólar í kvöld.  vísir/Diego

„Við vorum teknir í bólinu“ var það fyrsta sem Arnar Guðjónsson þjálfari Tindastóls hafði að segja eftir 91-75 tap gegn Grindavík í kvöld.

„Þeir voru mikið betri en við í dag. Sóknarleikurinn okkar var mjög slakur sem gaf þeim auðveldar körfur og þeim fór að líða vel. Við ætluðum síðan að bjarga þessu með einstaklings framtökum og það beit okkur í rassgatið“ bætti Arnar við en sóknarleikurinn var einmitt mjög slakur hjá hans mönnum.

„Hluti af því er að Grindavík að gera vel. Tóku okkur út úr hlutum og við vorum ekki áræðnir. Lásum aðstæður ekki nægilega vel og þess vegna er sigurinn þeirra verðskuldaður.“

En Grindvíkingum tókst að loka teignum vel sem Stólunum tókst ekki að leysa það.

„Við reyndum frekar að gera hlutina sjálfir í stað þess að hreyfa hann á næsta lausa mann. Það er svekkjandi að við höfum ekki staðið okkur ekki betur í kvöld. Væri alveg gaman að keppa aftur eftir 3 daga þegar menn eru teknir svona í bakaríið. Margir sem komu með eitthvað að borðinu hjá þeim. Unnsteinn var til dæmis alveg frábær og við áttum þessa flengingu skilið.“

En það er einmitt lang í næsta leik og góð pása fyrir liðið sem hefur verið að keppa í mörgum keppnum.

„Við vorum kannski farnir að hugsa um það en þetta var einstefnugata í dag og hún lá til Grindavíkur“sagði Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×