Körfubolti

„Fær að vera aðalgellan í liðinu“

Sindri Sverrisson skrifar
Ólöf Helga Pálsdóttir og stöllur í Körfuboltakvöldi hrósuðu Þórönnu í hástert.
Ólöf Helga Pálsdóttir og stöllur í Körfuboltakvöldi hrósuðu Þórönnu í hástert. Sýn Sport

Þóranna Kika Hodge-Carr mætti full sjálfstrausts aftur með Val í Bónus-deildina, eftir að hafa spilað með íslenska landsliðinu í undankeppni EM. Hún var lofuð í hástert í Körfuboltakvöldi, fyrir frammistöðu sína í sigrinum gegn Grindavík um helgina.

Þoranna skoraði meðal annars tuttugu stig og tók ellefu fráköst í leiknum framlengda gegn Grindavík og var atkvæðamest í Valsliðinu. „Aðalgellan“ eins og stelpurnar í Körfuboltakvöldi orðuðu það og sögðu Val hafa krækt í afar góðan bita í sumar með því að fá þennan fjölhæfa Keflvíking.

Klippa: Körfuboltakvöld - Þóranna Kika lofuð í hástert

„Valur þarf fleiri svona leikmenn sem taka af skarið, þora að keyra á körfuna og taka pláss. Spila vörn. Hún er alls staðar. Hún er í sókn, hún er í vörn, á bekknum að hvetja, skemmtileg inni í klefa. Þetta er leikmaður sem þú vilt hafa í liðinu þínu,“ sagði Embla Kristínardóttir í Körfuboltakvöldi.

„Það var talað um þegar hún kom aftur að hún væri eiginlega bara varnarmaður. Væri ekki skorari. Hún er svo sannarlega búin að troða sokk upp í þá sem trúðu því,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, þáttastjórnandi.

„Mér finnst það samt bara kjaftæði. Hún var ekkert „bara“ varnarmaður,“ sagði Ingibjörg Jakobsdóttir og Embla tók við boltanum:

„Málið er að hún kemur úr Keflavík þar sem þú ert með þrjátíu skorara og fæstir nenna að spila vörn þar. Augljóslega tekur hún þá að sér varnarhlutverk þar. Úti [í bandaríska háskólakörfuboltanum] lærði hún að taka pláss og fá að vera með í sókninni en hún hefur alltaf getað drævað og er alltaf snögg á fyrsta skrefi. Þetta er því ekkert nýtt. En núna fær hún plássið til að blómstra.“

Umræðuna í heild má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×