Körfubolti

Elvar mætir í góðu stuði í landsliðsverkefni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elvar Már er mikilvægur leikmaður hjá íslenska landsliðinu og hefur gengið vel með sínu félagsliði að undanförnu. 
Elvar Már er mikilvægur leikmaður hjá íslenska landsliðinu og hefur gengið vel með sínu félagsliði að undanförnu.  vísir / hulda margrét

Elvar Már Friðriksson fagnaði þriðja sigrinum í röð með Anwil Wloclawek í pólsku úrvalsdeildinni í körfubolta, 91-80 gegn Czarni Slupsk.

Elvar og félagar hafa nú unnið fimm af fyrstu átta leikjum tímabilsins og komst með sigri kvöldsins upp í fjórða sæti deildarinnar.

Íslenski leikstjórnandinn er í nokkuð stóru hlutverki hjá Anwil og spilaði 23 mínútur í kvöld, en deilir stöðunni með Bandaríkjamanninum Eric Lockett.

Lockett spilaði tveimur mínútum meira en Elvar og skilaði mun fleiri stigum, eða alls 24 á meðan Elvar gerði 8.

Elvar var þó duglegri að leita liðsfélagana uppi og skilaði 4 stoðsendingum en Lockett aðeins 2.

Pólska deildin er nú komin í landsleikjafrí fram að 4. desember.

Elvar hittir íslenska landsliðið í næstu viku fyrir leiki gegn Ítalíu á útivelli þann 28. nóvember og gegn Bretlandi í Laugardalshöll þann 30. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×