Samkvæmt AP hefur það ekki gerst síðan 1935 að forsætisráðherra Kanada missi völd eftir fyrsta kjörtímabil sitt í embætti. Kannanir benda hins vegar til þess að þetta kunni að gerast hjá Trudeau sem tók óvænt við forsætisráðherraembættinu fyrir fjórum árum.
Trudeau kom eins og stormsveipur inn í kanadísk stjórnmál þegar hann tók við formennsku í Frjálslynda flokknum árið 2013 og vann svo sigur í þingkosningum tveimur árum síðar. Breyttist ásýnd Kanada þá nokkuð eftir valdatíð Íhaldsflokksins þar sem Trudeau boðaði frjálslyndi, aðgerðir í loftslagsmálum og móttöku flóttafólks.
Minnkandi vinsældir
Vinsældir Trudeau hafa dalað síðustu misserin, ekki síst meðal ungra kjósenda. Hann hefur verið bendlaður við ýmis hneykslismál – meðal annars að hafa hindrað framgang réttvísinnar þar sem samstarfsmenn hans eru sagðir hafa komið í veg fyrir að stórfyrirtæki hafi sætt ákæru vegna spillingarmála. Þá vakti það mikið umtal fyrr í haust þegar ljósmyndir frá háskólaárum Trudeau voru birtar þar sem mátti sjá hann dökkmálaðan í framan.Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn mælist nú báðir með um 30 prósent fylgi og má því telja útilokað að nokkrum flokki takist að fá hreinan meirihluta á þingi.

Seinfeld-kosningarnar
CNN segir frá því að efnahagsmál og heilbrigðismál hafi verið áberandi í kosningabaráttunni, þar sem báðir stóru flokkarnir hafa keppst um að lofa skattalækkunum og auknum framlögum til heilbrigðismála.Sú staðreynd að ekkert eitt kosningamál hafi verið allsráðandi í kosningabaráttunni hefur orðið til þess að kosningarnar hafa fengið viðurnefnið Seinfeld-kosningarnar, kosningar um ekki neitt, en gamanþáttunum Seinfeld var oft lýst sem þáttum um ekki neitt.
Þó að kastljósið beinist að stóru flokkunum tveimur hafa smærri flokkar fengið byr í seglin. Þannig hafa Nýi lýðræðisflokkurinn, með sikkann Jagmeet Singh í broddi fylkingar vakið mikla athygli í kosningabaráttunni og þá hefur fylgi Græningja sömuleiðis aukist.