Erlent

Drónaumferð við her­stöð í Belgíu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þetta skilti er við flugvöllinn í Brussel í Belgíu.
Þetta skilti er við flugvöllinn í Brussel í Belgíu. EPA

Tvö kvöld í röð hafa drónar sést fljúga yfir herstöð í norðurhluta Belgíu. Lögreglan hefur málið til rannsóknar. Fjöldi dróna hefur sést yfir evrópskum flugvöllum síðustu mánuði.

„Þetta var ekki einföld yfirflugferð heldur skýrt verkefni,“ segir Theo Francken, varnarmálaráðherra Belga í færslu á samfélagsmiðlum. Hann staðfestir að búnaður sem truflar flug dróna hafi verið í gangi en hafi ekki virkað sem skyldi.

Starfsmaður herstöðvarinnar Kleini-Brogel, sem er í borginni Peer, varð var við dróna yfir herstöðinni aðfaranótt laugardags og tilkynnti þá til lögreglu. Aftur sást til dróna á laugardagskvöld. Steven Mathei, borgarstjóri Peer, staðfestir í umfjöllun Le Soir að að minnsta kosti einn dróni flaug yfir stöðina.

Lögreglan leitaði drónans úr þyrlu en fann hvorki drónann né flugmann hans. Mathei hyggst funda með Francken og fulltrúum lögreglu í næstu viku vegna málsins.

Í gærkvöldi sást einnig dróni yfir flugvellinum í Antwerp, sem er í um sjötíu kílómetra fjarlægð frá Peer. Drónaumferðin setti flug farþegavélar sem var að undirbúa sig til lendingar á flugvellinum í hættu. 

Fjöldi tilfella um ólöglega drónaumferð hafa komið upp í Evrópu á síðustu mánuðum. Farþegaflugvöllum hefur ítrekað verið lokað vegna þessa, til að mynda í Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Þá hafa einnig borist tilkynningar um drónaumferð yfir Keflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×