Þrír fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands vinna nú að uppgreftinum á Eyrarbakka þar sem Vesturbúðin stóð. Það er áhugamannafélag um uppbyggingu búðarinnar sem stendur að verkefninu en um var að ræða húsaþyrpingu nokkurra húsa.
„Við höfum hug á því að fá fjármagn í það að byggja upp húsin í sinni upprennilegustu mynd hér á þessum stað það sem þau sannarlega stóðu og koma í þau starfsemi, sem gæti þá lýst þessari sögu og tengingu Íslands við Eyrarbakka við útlönd í gegnum aldirnar“, segir Sigurjón Vídalín Guðmundsson áhugamaður um verkefnið.

En hafa þeir fundið eitthvað?
„Já, já, við erum búin að finna eitthvað. Við erum búin að vinna vegg, sem við vissum nánast hvar var. Þá eru komnar í ljós viðgerðir og mögulega eldri veggur líka, þannig að við erum að finna hluti af óskrifaðri sögu þessara húsa“, segir Ragnheiður Gló Gylfadóttir, fornleifafræðingur og verkefnisstjóri uppgraftarins.
Húsin voru um þrjú þúsund fermetrar að stærð enda mikil mannvirki síns tíma.
Ragnheiður Gló segir að mikilvægi Eyrarbakka sem verslunarþorps hafi verið mjög mikil á sínum tíma, miklu meiri en margir átti sig á í dag.
„Já, hér er verslunarsaga Íslands, allar leiðir lágu til Eyrarbakka, á Suðurlandi allavega. Ég er mjög bjartsýn á verkefnið enda er það mjög þarft finnst mér persónulega. Við munum reyna að finna fjármagn í þetta eftir fremsta megni, það vona ég allavega“.