Argentínska kvennalandsliðið þurfti nefnilega að gefa leik sinn á móti Kólumbíu í gær af því að leikmenn liðsins mættu í vitlausum búningi.
Pan-Am leikarnir eru íþróttaleikar allra Ameríkuþjóðanna og settir upp á svipaðan hátt og Ólympíuleikar. Þeir fara fram á fjögurra á fresti og eru á árinu á undan Sumarólympíuleikunum. Að þessu sinni fara þeir fram í Lima í Perú en síðast voru þeir í Toronto í Kanada.
Argentínumenn áttu að spila í hvítu í þessum leik í riðlakeppni leikanna en mættu í bláum búningi eins og kólumbísku stelpurnar voru í.
Argentina forfeit Pan-Am basketball game after wearing wrong colour jerseys https://t.co/GlcxkYqn4n
— Guardian sport (@guardian_sport) August 8, 2019
Argentínska liðið fékk fimmtán mínútur til að finna rétta búninginn og skipta en tókst það ekki. Niðurstaðan var því að Kólumbíu var dæmdur 20-0 sigur.
Argentínsku stelpurnar höfðu tapað fyrsta leik sínum á móti Bandaríkjunum og þetta „tap“ þýðir að liðið á ekki möguleika á því að spila um verðlaun á mótinu.
Þessi vandræðalega uppákoma hafði strax miklar afleiðingar því framkvæmdastjóri þróunarmála í kvennakörfu hjá argentínska sambandinu, Karina Rodriguez, sagði af sér og það gerði einnig, Hernan Amaya, liðstjóri argentínska liðsins.
„Þetta er sorglegasti dagurinn á mínum ferli. Ég tek fulla ábyrgð á því sem gerðist,“ sagði Hernan Amaya.
Argentínska landsliðið átti eftir einn leik á mótinu en liðið mætti Jómfrúaeyjum í dag. Argentína varr skráð heimalið í leiknum og átti því að mæta í hvítu. Þær gerðu það sem betur fer.