Innlent

Bensínbrúsi fannst á vettvangi brunans við Sléttuveg

Lovísa Arnardóttir skrifar
Eldurinn kviknaði í fjölbýlishúsi Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg.
Eldurinn kviknaði í fjölbýlishúsi Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg. Skjáskot/Stöð 2
Brynja hússjóður mun í framhaldi af bruna sem átti sér stað í bílakjallara við Sléttuveg á páskadag taka harðar á því að rusl sé skilið eftir í bílakjallara. Bruninn varð snemma páskadagsmorguns í húsi sem er á vegum sjóðsins. Talið er að hann sé af mannavöldum. Samkvæmt upplýsingum frá Birni Arnari Magnússyni, framkvæmdastjóra Brynju, fannst á vettvangi brunans bensínbrúsi og virðist sem kveikt hafi verið í dekkjum sem átti eftir að ganga frá í bílakjallaranum.

Björn segir í samtali við Fréttablaðið að íbúar hafi verið beðnir að fjarlægja dekkin áður en bruninn varð. „Við höfum beðið íbúa að vera ekki með dekk þarna og í framhaldi af þessu verður tekið enn harðar á því. Það verður ekkert leyfilegt þarna eftir þetta,“ segir Björn.

Talsverður fjöldi bíla varð fyrir skemmdum í brunanum, auk þess sem húsnæðið sjálft skemmdist eitthvað. Björn segir að, í samráði við tryggingafélag, hafi iðnaðarmenn verið fengnir á vettvang í dag og að bílarnir sem voru í kjallaranum hafi verið fluttir í alþrif.

Hann segir að það líti jafnvel út fyrir að þeir séu ekki eins skemmdir og upphaflega var talið en það komi í ljós að þrifum loknum hversu mikið tjónið er.

„Mér sýnist að þetta hafi farið betur en maður þorði að vona. En það er mikið tjón á húsnæðinu. Maður veit ekki með bílana en manni sýnist að þeir hafi sloppið,“ segir Björn.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×