Málið er unnið innan umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og í nánu samráði við samgönguráðherra, sem var spurður um það við upphaf þingfundar í dag hversvegna núna þyrfti veggjöld sem hann mælti áður gegn:
„Það er meðal annars vegna þess að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, í orkuskiptum, þá höfum við orðið þess fullviss að tekjur ríkisins af bensín- og dísilgjöldum munu fara hratt lækkandi næstu ár og þær tekjur munu þá ekki duga fyrir þeim vegaframkvæmdum sem við almennt sættum okkur við,“ svaraði Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ekki yrðu sett upp sérstök tollskýli heldur myndavélar sem myndu skrá öll bílnúmer, sem síðan yrðu gjaldfærð. Ökumenn þyrftu þannig ekki að hægja á umferðarhraða vegna þeirra. Veggjöldin yrðu tiltölulega lág, kannski 140-150 krónur á hvern fólksbíl í hvert skipti með afslætti en einstakt gjald yrði talsvert hærra. Veggjöldin gætu skilað yfir tíu milljörðum króna í tekjur á ári, en það ræðst af útfærslu og fjárhæð.

Jafnframt yrði stórverkum flýtt á landsbyggðinni, eins og vegagerð yfir Dynjandisheiði og Öxi og brúarsmíði yfir Jökulsá á Fjöllum og Hornafjarðarfljót. Þá yrði átak gert í uppbyggingu dreifbýlisvega, eins og um Skógarströnd, Borgarfjarðardali og Vatnsnes.
Í fluginu yrði uppbygging varaflugvalla í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum sett undir kostnað Keflavíkurflugvallar og innheimt varaflugvallagjald, sem þýddi að meira fé yrði á fjárlögum til annarra innanlandsvalla.

Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, spurði samgönguráðherra hvað lægi á að klára þetta fyrir jól:
„Ef það gengur upp að ná að ljúka þessu núna væri það frábært. Vegna þess að fjögurra ára áætlunin er að renna út núna í lok þessa árs og það er mjög mikilvægt fyrir Vegagerðina að hafa svolítinn fyrirsjáanleika í sínum áætlunum, hönnun og útboðum. Meðal annars til að ná fram eins mikilli hagræðingu í rekstri og útboðum og unnt er,“ svaraði samgönguráðherra.
Samgönguáætlun er þingsályktun en veggjöldin kalla á sérstakt lagafrumvarp, sem kæmi þá fram á vorþingi. Verði málið samþykkt á Alþingi má gera ráð fyrir að það taki minnst eitt til eitt og hálft ár að undirbúa gjaldtökuna. Menn sjá fyrir sér að vegtollarnir geti farið að tikka inn haustið 2020.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: