Erlent

Lögfræðingur Trump sagður hafa viðrað hugmyndir um náðun lykilmanna í miðri rannsókn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump, ásamt Michael Flynn, á kosningafundi fyrir kosningarnar árið 2016.
Donald Trump, ásamt Michael Flynn, á kosningafundi fyrir kosningarnar árið 2016. Vísir/Getty
Einn af lögfræðingum Donald Trump forseta Bandaríkjanna ræddi möguleikann á því að fyrrverandi ráðgjafar forsetans yrðu náðaðir á sama tíma og Robert Mueller, sérstakur saksóknari, var með þá til rannsóknar, að því er New York Times greinir frá.

Ráðgjafarnir sem um ræðir eru Michael Flynn og Paul Manafort. Sá fyrrnefndi samdi við Mueller, sem fer fyrir rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum. Játaði Flynn að hafa logið að FBI en samþykkti að aðstoða teymi Muellers í rannsókninni.

Manafort var einnig ákærður fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum, um peningaþvætti og að gefa rangar yfirlýsingar til yfirvalda. Hann neitar sök.

Í frétt New York Times segir að John Dowd, þáverandi lögmaður Trump, hafi rætt við lögfræðinga Flynn og Manafort um að þeir yrðu náðaðir af forsetanum.

Segir í fréttinni að þetta vekji upp spurningar um hvort með þessu hafi verið reynt að hindra framgang réttvísinnar. Ekkert bendir þó til þess að að Dowd hafi rætt um það að náða þá félaga við Trump sjálfan.

Þó er einnig greint frá því í fréttinni að Trump hafi spurt nánustu ráðgjafa sína um vald sitt til þess að náða einstaklinga.

Dowd, sem hætti óvænt sem lögmaður Trump í síðustu viku, þvertekur fyrir að hafa rætt náðun við lögfræðinga Flynn og Manafort.


Tengdar fréttir

Manafort segist saklaus af öllum ákærunum

Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump, og viðskiptafélagi hans lýstu sig saklausa af ákærum fyrir fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum, peningaþvætti og skattsvik, er þeir komu fyrr rétt í Washingon í dag.

Lögmaður Trump hættur

John Dowd, aðallögmaður Donald Trump forseta Bandaríkjanna, í málefnum sem tengjast rannsókn sérstaks saksóknara á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum er hættur störfum fyrir forsetann.

Flynn lýsir sig reiðubúinn að aðstoða Mueller

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, lýsti sig sekan fyrir dómi af því að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni. Þá hefur hann samþykkt að aðstoða Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×