Töluvert hefur verið rætt um hvernig hnattræn hlýnun af völdum manna gæti hafa aukið styrk fellibyljanna Harvey og Irmu sem hafa valdið mannskaða og eyðileggingu í sunnanverðum Bandaríkjunum á skömmum tíma.
Vísindamenn hafa bent á að þó að loftslagsbreytingar valdi ekki myndun fellibyljanna þá geri hlýrri sjór og loft þeim kleift að verða öflugari en ella.
Segist þurfa að rannsaka tengslin betur
Slík umræða er þó eitur í beinum ríkisstjórnar Trump og fjölda repúblikana en meirihluti þeirra afneitar vísindalegri þekkingu á orsökum loftslagsbreytinga.
Þannig sagði Scott Pruitt, forstjóri Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA), að það væri „tillitsleysi“ í garð Texas-búa að ræða um hvort að loftslagsbreytingar hafi gert fellibylinn Harvey enn öflugri.
Pruitt hefur áður sagst ekki trúa því að koltvísýringur sé aðalorsakavaldur hnattrænnar hlýnunar, þvert á það sem loftslagsvísindamenn, þar á meðal hans eigin stofnunar, segja.

„Við höldum áfram að taka loftslagsbreytingar alvarlega, ekki orsakir þeirra, heldur það sem við sjáum,“ sagði Bossert, að því er kemur fram í frétt CNN.
Ætla að taka mið af framtíðaraðstæðum
Ríkisstjórn Trump hefur haft hraðar hendur við að afnema ýmsar reglur sem settar voru á til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og aðlagast þeim frá því að hann tók við völdum.
Þannig hefur verið á það bent að Trump afnam reglur um að taka þyrfti tillit til framtíðarflóða í hlýnandi heimi við mannvirkjagerð sem alríkisstjórnin leggur fé í rétt áður en Harvey olli sögulegum flóðum í Texas.
Bossert tók þó fram á fundinum að Trump ætlaði að ganga úr skugga um að alríkisfé yrði ekki notað til að endurreisa hluti sem yrðu í hættu í framtíðinni eða yrðu ekki hannaðir til að standa af sér frekari flóð.