Körfubolti

Stórt kvöld í borginni sem átti ekki meistara í 52 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James með uppskeruna í sumar.
LeBron James með uppskeruna í sumar. Vísir/Getty
Cleveland Cavaliers endaði í júní meira en hálfrar aldar bið Cleveland-borgar eftir meistaraliði og það lítur úr fyrir að hin fræga Cleveland-bölvun heyri nú sögunni til.

Gott dæmi um það er gengi hafnarboltaliðs Cleveland en Cleveland Indians hafnarboltaliðið er nú komið alla leið í úrslitin um meistaratitilinn.

Cleveland borg eignaðist ekki meistaralið frá 1964 til 2016 eða frá því að Cleveland Browns vann ameríska fótboltann 1964 þar til að Cleveland Cavaliers vann NBA-titilinn í sumar.

Hvað eftir annað voru atvinnumannalið borgarinnar komin í góða stöðu aðeins til að horfa upp á drauminn breytast í martröð. Síðasta dæmið var þegar LeBron James yfirgaf Cleveland Cavaliers og samdi við Miami Heat.

LeBron James snéri hinsvegar aftur til Cleveland Cavaliers og vann síðan langþráðan titil í júní eftir magnaða framgöngu í þremur síðustu leikjunum.  Cavaliers-liðið vann þá alla og felldi metlið Golden State Warriors.

Það vill síðan svo til að tvö Cleveland-lið spila í kvöld en Cleveland Cavaliers liðið spilar þá sinn fyrsta leik sem NBA-meistari og Cleveland Indians liðið spilar fyrsta leikinn í úrslitaeinvíginu.

Báðir leikirnir fara fram í Cleveland og vellir liðanna, hafnarboltavöllurinn Progressive Field og körfuboltahöllin Quicken Loans Arena eru hlið við hlið í miðbæ Cleveland.

Leikur Cleveland Cavaliers og New York Knicks hefst klukkan 7.30 að bandarískum tíma eða klukkan 23.30 að íslenskum tíma. Hafnarboltaleikurinn hefst síðan átta mínútum yfir miðnætti.

„Þetta er sérstakt kvöld fyrir alla stuðningsmenn í Cleveland og í norðaustur Ohio sem fá að upplifa svona kvöld. Þau fá tækifæri til að muna efir þessum degi þegar við fáum hringina okkar og Indians hýsa fyrsta leik úrslitanna. Það er sögulegur dagur. Allir þeir sem búa hér munu aldrei gleyma honum. Ég er ánægður að fá að vera hluti af þessu,“ sagði LeBron James, stórstjarna Cleveland Cavaliers liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×