Fyrsti leikur Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar fer fram í nótt.
Leikurinn hefst klukkan 01:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.
Þessi sömu lið mættust einnig í úrslitaeinvíginu í fyrra þar sem Golden State hafði betur, 4-2. Líkt og í fyrra er Golden State með heimavallaréttinn.
Golden State fór öllu erfiðari leið í úrslitaeinvígið en Cleveland. Liðið vann bæði Houston Rockets og Portland Trail Blazers 4-1 en lenti í vandræðum með Oklahoma City Thunder.
Meistararnir voru komnir í vond mál, 3-1 undir eftir fyrstu fjóra leikina, en sneru dæminu sér í vil og tryggðu sér farseðilinn í úrslitaeinvígið með 96-88 sigri í oddaleik á heimavelli aðfaranótt þriðjudags.
Skvettubræðurnir, Stephen Curry og Klay Thompson, voru í miklum ham í síðustu tveimur leikjunum gegn Oklahoma. Samtals gerðu þeir 30 þriggja stiga körfur í leikjunum tveimur, úr aðeins 55 tilraunum.
Sjá einnig: LeBron James: Ég gerði mistök
LeBron James og félagar í Cleveland sópuðu Detroit Pistons og Atlanta Hawks úr keppni en þurftu sex leiki til að sigrast á Toronto Raptors.
James var magnaður í úrslitaeinvíginu í fyrra þar sem hann skoraði 35,8 stig að meðaltali í leik, tók 13,3 fráköst og gaf 8,8 stoðsendingar.
Cleveland var óheppið með meiðsli í fyrra og spilaði nánast allt úrslitaeinvígið án Kyrie Irving og Kevin Love. En núna eru þeir heilir heilsu og tilbúnir að takast á lið Golden State-liðið sem setti met með því að vinna 73 leiki í deildarkeppninni í vetur.
