Einn besti útherjinn í NFL-deildinni síðustu ár, Wes Welker, er búinn að rífa skóna niður úr hillunni.
Hann samdi í gær við St. Louis Rams út þessa leiktíð. Welker gæti fengið um 145 milljónir í aðra hönd fyrir tímabilið.
Welker lék með Denver Broncos í fyrra en fékk ekki nýjan samning. Flestir héldu að hann væri hættur enda var hann búinn að fá heilahristing þrisvar á tveim tímabilum.
Welker var valinn í stjörnuleik deildarinnar fimm ár í röð frá 2008 til 2012. Á tíu tímabilum með Miami Dolphins, New England Patriots og Denver greip Welker boltann 890 sinnum og skoraði 50 snertimörk.
Welker mættur aftur í NFL-deildina
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
