Körfubolti

Bosh búinn að ná sér af veikindunum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Chris Bosh, leikmaður Miami Heat.
Chris Bosh, leikmaður Miami Heat. Vísir/Getty
Chris Bosh, leikmaður Miami Heat, segist vera búinn að ná sér og að hann geti tekið þátt af fullu á ný eftir hann greindist með blóðtappa í lungunum. Bosh hefur ekkert leikið frá því um miðjan febrúar en hann er einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins.

Bosh fann fyrir slappleika á æfingu þann 19. febrúar síðastliðinn en hann hafði fundið fyrir einhverjum veikindum dagana áður. Var hann sendur í rannsóknir undir eins þar sem kom í ljós að hann væri með blóðtappa í lungunum en hann er þriðji NBA-leikmaðurinn sem hefur greinst með blóðtappa í lungunum á undanförnum árum.

Lék hann ekki meir með Miami á síðasta tímabili sem missti af úrslitakeppninni í fyrsta sinn í langan tíma en hann verður klár í slaginn þegar NBA-deildin fer af stað á ný þann 27. október næstkomandi.

Bosh sem hefur tíu sinnum verið valinn í stjörnulið NBA-deildarinnar var með 21,1 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili ásamt því að taka 7 fráköst að meðaltali í leik í þeim 44 leikjum sem hann lék.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×