Lífið

Vissi ekki af lekanum: Send á neyðarfund þar sem allir jusu yfir okkur fúkyrðum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem lék dívuna Silvíu Nótt, segist ekki hafa haft nokkurra vitneskju um að Gaukur Úlfarsson, einn höfunda Eurovision-lagsins Til hamingju Ísland, hefði lekið því á netið áður en það var kynnt fyrir landsmönnum árið 2006.

Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma, lögð var fram stjórnsýslukæra og sextán þátttakendur í keppninni rituðu nafn sitt á lista og mótmæltu því að Silvía Nótt fengi að taka þátt.

„Þeir sendu mig á einhvern neyðarfund með öllum og við Þorvaldur fórum saman. Allir fengu orðið og látið ganga hringinn þar sem allir bunuðu á okkur fúkyrðunum. En við vissum ekki neitt,“ sagði Ágústa Eva í þættinum Eurovísi.

Sjá einnig: Lak lagi Silvíu Nætur: „Fyrirgefðu Ísland“

Höfundar lagsins sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins og sögðust harma það mjög að lagið hafi komist í dreifingu. Lekinn hafi algjörlega verið án þeirra vitundar.

Gaukur viðurkenndi að hafa lekið laginu í útvarpsþættinum Árið er á Rás 2 í lok síðasta árs „Á þessum tíma voru allir að senda þessi lög sín á milli og diskar með lögunum lágu á glámbekk hér og þar. Ef einhver hefði viljað deila lögunum þá hefði það ekki verið neitt gríðarlega mikið mál. Það var engin rosaleg regla og ekkert verið að halda neitt svakalega mikið um það að lögunum yrði ekki dreift á internetinu. Sum lög voru bara miklu vinsælli en önnur, það er bara staðreyndin,“ sagði hann.

Hlusta má á viðtalið við Gauk og Ágústu í spilaranum hér fyrir ofan. 

Eurovísir er nýtt vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×