„Ég held það sé óhætt að segja að ég hafi verið andsetinn af Silvíu Nótt á þessum tíma. Bæði ég og Ágústa lifðum tvöföldu lífi – eða allavega ég að því leytinu til að ég gat fengið útrás fyrir alls konar hrekkjabrögð í skjóli Silvíu Nætur. Þarna fannst mér eins og ef Silvía Nótt væri að keppa þá myndi hún beita öllum brögðum og svindla eins og hún gæti til þess að sigra. En ég vil biðja þjóðina afsökunar. Fyrirgefðu Ísland,“ segir Gaukur í samtali við Vísi.
Höfundur lagsins er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og textann samdi Ágústa Eva Erlendsdóttir ásamt Gauki Úlfarssyni. Höfundar lagsins sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar lekans þar sem þeir hörmuðu það að lagið hafi komist í dreifingu á netinu. Þar sagði meðal annars að lekinn hafi algjörlega verið gegn vilja höfunda og gerst án þeirrar vitundar.
Farið var fram á að Silvíu Nótt yrði vísað úr keppni en tók RÚV þá ákvörðun að lagið fengi að halda áfram keppni. Í kjölfarið lagði Kristján Hreinsson fram stjórnsýslukæru í málinu en var henni vísað frá.
Eins og kunnugt er sigraði Silvía Nótt í undankeppninni og flutti lag sitt í Aþenu í Grikklandi 19.maí 2006. Lagið var afar umdeilt og komst það ekki áfram í aðalkeppnina.
„Ég mun á næstunni fara hús í hús og biðja fólk afsökunar persónulega,“ segir Gaukur að lokum, á léttum nótum.