Innlent

Björn Valur með 28 fyrirspurnir á innan við viku

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Björn Valur verður seint sakaður um að vera ekki duglegur í vinnunni.
Björn Valur verður seint sakaður um að vera ekki duglegur í vinnunni. Vísir / GVA
Enginn þingmaður hefur verið jafn duglegur við að spyrja ráðherra í þinginu en varaþingmaðurinn Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna. Frá því að hann tók sæti á þingi tímabundið í síðustu viku hefur hann lagt fram 28 fyrirspurnir til ráðherranna.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er sá eini sem kemst nálægt Birni Val í spurningafjölda en hann hefur lagt fram 25 fyrirspurnir. Birgitta Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir hafa lagt fram átján fyrirspurnir hvort og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tíu. Aðrir þingmenn hafa lagt fram færri fyrirspurnir en það.

Svo iðinn hefur Björn Valur verið þessa nokkru daga hans á þingi að hann hefur spurt fleiri spurninga en allir þingmenn Framsóknarflokksins og fleiri en samanlagður fjöldi spurninga þingmanna Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks.

Flestar fyrirspurnanna sem Björn Valur hefur lagt fram snúa að tveimur spurningum; flutning stofnana og fjölda opinberra starfa. Hann hefur lagt fyrirspurnir um þetta fyrir alla ráðherrana, samtals 22 fyrirspurnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×