Innlent

Þeim fækkar sem lesa og skrifa skila­boð við akstur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Gunnar Geir segir ánægjulegt að herferðin um skjáhættu hafi skilað árangri.
Gunnar Geir segir ánægjulegt að herferðin um skjáhættu hafi skilað árangri. Vísir/Einar

Hlutfall fólks sem á það til að lesa skilaboð við akstur lækkar úr 40,1 prósent í 35,8 prósent á milli ára. Hlutfall þeirra sem á það til að skrifa skilaboð við akstur lækkar úr 31,8 prósent í 27,7 prósent. 

Gunnar Geir Gunnarsson deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu segir sameiginlegt átak Samgöngustofu og Sjóvá í fyrra um skjáhættu hafa skilað miklum árangri.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum niðurstöðum Samgöngustofu úr árlegri umferðarkönnun þeirra. Spurt er um ýmsa hegðun og viðhorf ökumanna og hjólreiðamanna.

Í könnuninni er til dæmis spurt um ýmsa hegðun tengdri farsímanotkun undir stýri. Þeim fækkar á milli ára sem skoða samfélagsmiðla, skrifa skilaboð, lesa skilaboð, stjórna tónlist og taka myndir en þeim fjölgar á sama tíma sem nota handfrjálsan búnað til að tala í síma á meðan þau keyra.

Alls segjast 31 prósent tala oft í símann með handfrjálsum búnaði, 37 prósent stundum og 19 prósent sjaldan. Þá segja 13 prósent að þau tali aldrei í símann með handfrjálsum búnaði. Fólk er einnig spurt í könnuninni hversu hættulegt þau telja að gera það og segja sem dæmi 64 prósent þeirra sem tala oft í handfrjálsan búnað að þau telji það alveg hættulaust.

Ekki er mælt með því að nota farsíma á meðan fólk ekur. Enn gera það þó nokkuð margir.Vísir/Getty

„Þegar við sáum niðurstöður könnunarinnar í fyrra fannst okkur ekki annað hægt en að bregðast við,“ segir Gunnar Geir í samtali við fréttastofu. Það hafi svo leitt til átaksins um skjáhættu.

„Núna er svo komin ný könnun og við sjáum að allar mælingar um farsímanotkun undir stýri eru á niðurleið á milli ára. Við metum það svo að ef við hefðum ekkert gert hefði þetta haldið áfram að aukast og viljum meina að herferðin hafi sett stopp í þróun og snúið henni við.“

Gunnar Geir segir eina undantekningin vera notkun handfrjáls búnaðar undir stýri. Áherslan sé ekki á það í herferð Samgöngustofu en að slíkri notkun fylgi þó einnig truflun.

„Það er eina hegðunin af þessum sem spurt er um sem er lögleg,“ segir Gunnar Geir. Áhyggjuefni þeirra sé hugræna truflunin og það sé ekki endilega það að halda á símanum sem sé að trufla, heldur frekar símtalið og innihald þess.

Ekki bara síminn sem truflar

Gunnar Geir segir farsímann þó alls ekki það eina sem geti truflað fólk. Í mörgum nýjum bílum séu skjáir þar sem fólk stýrir ýmsu varðandi til dæmis tónlist eða hitastig í bílunum. 

„Sumir bílar virka ekki nema með skjánum. Það er ekki hægt að breyta miðstöðinni nema með skjánum og það er slæmt. Í venjulegum bílum geturðu gert þetta án þess að líta af veginum.“

Í sumum nýjum bílum þurfi fólk að finna valmynd á skjá og leita að réttu möguleikanum.

„Þú ert kominn með augun af veginum og dýpra inn í aðgerðina sem þú ert að reyna að framkvæma.“

Hann segir tónlist annað sem Samgöngustofa hefur áhyggjur af. 

Fólk er einnig í könnuninni spurt um það hvort þau noti símann við akstur til að stjórna tónlist. 50 prósent segjast aldrei gera það en sama hlutfall var 49 prósent í fyrra. Átta prósent segjast oft gera það, 22 prósent stundum og 20 prósent sjaldan.

„Við höfum ekki áhyggjur af því að fólk sé að velja næsta lag í stýrinu  en þegar fólk er farið að leita að nýjum lagalista eða hlaðvarpi þvi lagið er leiðinlegt þá ertu algjörlega hættur að keyra á meðan. Þú ferð dýpra inn í símann en jafnvel þegar þú ert að lesa skilaboðin,“ segir Gunnar Geir og að við þessar aðstæður sé fólk að leggja meira í símann en aksturinn.

Í átaki Samgöngustofu var fólki einnig bent á að setja síma sína á akstursstillingu þannig hann hringi ekki eða trufli þau með öðrum hætti á meðan þau aka bíl. Í könnuninni var spurt um þekkingu á þessari stillingu. Flestir sem svara segjast ekki þekkja til stillingarinnar, eða 63 prósent.

Um 10,7 prósent segjast nota akstursstillingu alltaf, oft eða stundum á meðan 22 prósent segjast þekkja stillinguna en ekki nota hana.

„Herferðin var tvíþætt og helmingurinn var að benda á þessa akstursstillingu. Þú þarft bara að stilla þetta einu sinni og þá truflar síminn þig ekki á meðan þú ert að keyra,“ segir Gunnar Geir og hvetur fólk til að nýta þessa stillingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×