Það sem gerir Bárðarbungu sérlega hættulega eldstöð er að jarðsagan sýnir að hún veldur hamfarahlaupum, þegar jarðeldurinn bræðir mikið snjófarg á skömmum tíma, eins og Helgi Björnsson jöklafræðingur lýsir í hádegisfréttum Bylgjunnar:
„Þetta er allt saman undir firnaþykkum jökli. Hann er allt að því 800 metra þykkur. Þar sem skjálftarnir eru akkúrat núna, sem er reyndar ekki í Bárðarbungu sjálfri, þar er þetta 600 metra þykkt. Þetta er alveg eins þykkt og var í Gjálpargosinu þegar það kom upp."
Helgi segir að menn geti horft til hamfarahlaupsins sem kom niður á Skeiðarársand eftir Gjálpargosið árið 1996 en það sópaði burt brúnni yfir Gígjukvísl og tók Skeiðarárbrú í sundur. Helgi telur að brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum yrði allar í mikill hættu ef eldgos kæmi upp á þeim stað sem nú þykir líklegastur, sem er í Dyngjujökli.

„En þetta yrði illskárra en var í Gjálpargosinu vegna þess að þarna myndi vatn væntanlega ekki safnast fyrir eins og gerðist 1996. Þá fór það niður í Grímsvötn og fyllti þau og kom svo með rennsli sem var tífalt það sem ég var að nefna áðan. Þannig að þetta yrði jafnara og minna, - en nógu slæmt samt," segir Helgi Björnsson jöklafræðingur.