Jeremy Lin og félagar í New York Knicks þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigrinum á Atlanta Hawks í NBA-deildinni í körfubolta í fyrrinótt en það má búast við því að það bíði þeirra talsvert erfiðari leikur í nótt.
New York heimsækir þá stjörnulið Miami á Flórída en þetta er síðasti leikur liðanna fyrir Stjörnuleikinn sem fram fer í Orlando á sunnudaginn kemur.
Það má segja að súperstjörnur Miami, LeBron James og Dwyane Wade, hafi eins og allir aðrir leikmenn NBA-deildarinnar fallið í skuggann á Jeremy Lin síðustu vikurnar og ef menn þekkja þá James og Wade ætla þeir örugglega að sýna mátt sinn og megin í kvöld.
Jeremy Lin hefur skorað 23,9 stig og gefið 9,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í síðustu ellefu leikjum New York en Knicks-liðið hefur unnið 9 þeirra þar af alla þrjá gegn liðum sem hafa verið með yfir 50 prósent sigurhlutfall.
Miami-liðið hefur verið á mikilli siglingu enda búið að vinna sjö leiki í röð og þá alla með tólf stigum eða meira. Miami hefur jafnframt unnið 14 af 16 heimaleikjum sínum á tímabilinu þar á meðal 99-89 sigur á New York í síðasta leik liðanna 27. janúar en Lin fékk ekki eina einustu mínútu í þeim leik.
Leikurinn hefst klukkan sjö að bandarískum tíma eða á miðnætti á íslenskum tíma.
Stórt próf hjá Lin í kvöld | New York heimsækir Miami
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Það var engin taktík“
Fótbolti



Raggi Nat á Nesið
Körfubolti





Uppgjörið: ÍA - KR 1-0 | Skagamenn náðu fram hefndum
Íslenski boltinn