New Orleans vann í nótt sinn níunda sigur í röð í NBA-deildinni í körfubolta er liðið vann Oklahoma City, 91-89.
David West reyndist dýrmætur á lokamínútum leiksins en hann skoraði sigurkörfuna í leiknum hálfri sekúndu fyrir leikslok. Alls skoraði hann 20 stig í leiknum.
Chris Paul var stigahæstur hjá New Orleans með 24 stig auk þess sem hann gaf níu stoðsendingar og stal þremur boltum.
Oklahoma City byrjaði þó mun betur í leiknum og var með fjórtán stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 33-19. En þá hrökk varnarleikur New Orleans í gang en liðið hefur fengið á sig fæst stig allra liða að meðaltali í deildinni.
Kevin Durant skoraði 22 stig fyrir Oklahoma City en hann brenndi af öllum fimm skotunum sínum í fjórða leikhluta. Emeka Okafor skoraði ellefu stig og tók níu fráköst.
Memphis vann Toronto, 100-98. Rudy Gay skoraði sigurkörfu Memphis á lokasekúndu leiksins en Zach Randolph var með sautján stig og tólf fráköst í leiknum. Þetta var áttunda tap Toronto í röð.
New Jersey vann Cleveland, 103-101. Brook Lopez skoraði sigurkörfu leiksins þegar 1,4 sekúndur voru eftir en þetta var sautjánda tap Cleveland í röð.
New York vann Washington, 115-106. Amare Stoudemire skoraði 30 stig og batt enda á sex leikja taphrinu New York.
Detroit vann Orlando, 103-96. Tayshaun Prince og Austin Daye skoruðu 20 stig hvor fyrir Detroit.
Chicago vann Milwaukee, 92-83. Kurt Thomas skoraði 22 stig og Derrick Rose 21 auk þess sem hann gaf tíu stoðsendingar.
Houston vann Minnesota, 129-125. Kevin Martin skoraði 34 stig og Shane Battier nítján fyrir Houston.
Philadelphia vann Phoenix, 105-95. Thaddeus Young skoraði 24 stig og Elton Brand 22 auk þess sem hann tók níu fráköst.
San Antonio vann Golden State, 113-102. Manu Ginobili skoraði 20 stig og gaf sjö stoðsendingar fyrri San Anotnio.
Sacramento vann Portland, 96-81. Tyreke Evans skoraði 26 stig í fjórða útisigri Sacramento í röð.