„Frægasta tískubúð á Íslandi fyrr og síðar var Sesar á Akureyri. Þar tókst mér að selja 20 þúsund gallabuxur í 10 þúsund manna bæ á sínum tíma. Saga mín í viðskiptum spannar marga áratugi og er ansi ótrúleg á köflum. Það hafa ekki alltaf verið jólin, en með þrautseigju, einstöku samstarfsfólki, góðum viðskiptafélögum og jákvæðni er staðan í dag frábær,“ segir hinn nær áttræði, framkvæmdaglaði Herbert Óskar Ólafsson, betur þekktur sem Kóki, sem rekur reiðtygja og reiðfataframleiðsluna Top Reiter, að líkindum þá stærstu í íslenska hestaheiminum.