Íslenski boltinn

Ís­lands­meistararnir byrja vel og KR sótti sigur á Akur­eyri

Aron Guðmundsson skrifar
Aron Elís Þrándarson var á skotskónum fyrir Víking Reykjavík í Lengjubikarnum í dag. 
Aron Elís Þrándarson var á skotskónum fyrir Víking Reykjavík í Lengjubikarnum í dag.  Getty/George Wood

Ríkjandi Íslandsmeistarar Víkings Reykjavíkur hófu keppni í Lengjubikar karla í fótbolta með 2-0 sigri á Grindavík og sextán ára strákur tryggði KR sigur á KA. Fjórum leikjum er lokið í keppninni í dag.

Víkingar tóku á móti Grindvíkingum í blíðskaparveðri á Víkingsvelli í Fossvoginum í riðli þrjú í dag. 

Víkingar Íslandsmeistarar frá því á síðasta tímabili í Bestu deildinni en Grindvíkingar spila í Lengjudeildinni.

Það voru heimamenn sem unnu tveggja marka sigur í leik dagsins en Aron Elís Þrándarson, sem skoraði fyrsta mark leiksins á 45.mínútu. 

Það var síðan varnarmaðurinn Róbert Orri Þorkelsson sem innsiglaði 2-0 sigur Víkinga með seinna marki liðsins á 71.mínútu. 

Góður útisigur KR 

Í sama riðli tóku svo KA-menn á móti KR á Greifavellinum á Akureyri. Gestirnir frá Reyjavík fengu vítaspyrnu á 70.mínútu þegar að Birgir Baldvinsson, varnarmaður KA, handlék boltann innan eigin vítateigs. 

Það var Luke Rae sem tók vítaspyrnuna fyrir KR og skoraði fyrsta mark leiksins. Skömmu síðar var hann nærri búinn að tvöfalda forystu gestanna en Steinþór Már Auðunsson gerði frábærlega í því að sjá við honum og verja skot Luke er hann var sloppinn einn í gegnum vörn KA. 

Komið var fram í uppbótartíma þegar að hinn sextán ára gamli Tristan Gauti Línberg Arnórsson tryggði KR 2-0 sigur með laglegu marki eftir góða undirbúningsvinnu frá áður téðum Luke Rae. KR-ingar hefja Lengjubikarinn á sigri. 

Auðvelt hjá Fram

Í riðli eitt áttu Framarar ekki í neinum vandræðum með lið Ægis frá Þorlákshöfn sem spilar í Lengjudeildinni á komandi tímabili. 

Liðin mættust á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal í leik sem Fram vann 6-0. Freyr Sigurðsson skoraði tvö af mörkum fram og þeir Egill Otti Vilhjálmsson, Róbert Hauksson, Kennie Chopart og Sigurjón Rúnarsson skoruðu allir eitt mark. 

Lagleg endurkoma Þróttara

Þá er einum leik lokið í riðli fjögur. Það var Lengjudeildarslagur í boði þegar að Leiknir Reykjavík tók á móti Þrótti Reykjavík á Domusnovavellinum. 

Shkelzen Veseli kom Leiknismönnum yfir á 36.mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins en Þróttarar svöruðu með fjórum mörkum í þeim seinni og unnu að lokum 4-1 sigur. Unnar Steinn Ingvarsson, Adam Árni Róbertsson, Njörður Þórhallsson og Aron Snær Ingason skoruðu mörk Þróttar í leiknum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×