Íslenski boltinn

Davíð Smári sækir fleiri leik­menn úr bikarævintýrinu

Aron Guðmundsson skrifar
Guy Smit er orðinn leikmaður Njarðvíkur
Guy Smit er orðinn leikmaður Njarðvíkur Vísir/Anton Brink

Markvörðurinn Guy Smit er orðinn leikmaður Lengjudeildar liðs Njarðvíkur og mun reyna að hjálpa liðinu að komast upp í Bestu deildina undir stjórn Davíðs Smára Lamude sem hann spilaði áður hjá með liði Vestra og varð bikarmeistari með. 

Mikil styrking fyrir Njarðvíkinga sem eru að fara inn í sitt fyrsta tímabil undir stjórn Davíðs Smára og stefnan sett beint upp í Bestu deildina. 

Smit lék lykilhlutverk í liði Vestra á síðasta tímabili þar sem að hann varði oft á tíðum virkilega vel eftir fremur dapran tíma í herbúðum KR þar áður.

Vestri féll úr Bestu deildinni en varð bikarmeistari en fljótt varð ljóst að Smit myndi ekki verja mark liðsins á komandi tímabili. Áhugi var á hans kröftum erlendis frá en nú hefur hann samið við Njarðvíkinga.

Smit er ekki fyrsti leikmaðurinn sem Davíð Smári sækir úr Vestra verkefni sínu. Miðvörðurinn reynslumikli, Eiður Aron Sigurbjörnsson gekk í raðir Njarðvíkinga fyrir ekki svo löngu síðan. 

Njarðvíkingar hafa verið að styrkja hópinn vel í aðdraganda komandi tímabils í Lengjudeildinni. Í gær var til að mynda greint frá því að liðið hefði keypt Braga Karl Bjarkason frá FH og er þá listinn yfir nýja leikmenn liðsins ekki tæmdur.

Með komu Guy Smit fá Njarðvíkingar afar reynslumikinn mann í markið. Guy er þrítugur markvörður sem er fæddur í Hollandi, en hefur leikið á Íslandi frá árinu 2020 þegar hann kom fyrst til Leiknis Reykjavíkur, þar sem hann hjálpaði þeim að komast upp úr Lengjudeildinni í þá Bestu. Auk Leiknis hefur Guy leikið með Val, KR, ÍBV og nú síðast Vestra




Fleiri fréttir

Sjá meira


×