Lífið

Krútteyjurnar Ischia og Sikil­ey: Ástu leist ekki á einnar evru húsin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ásta fór til Ítalíu og settist þar að.
Ásta fór til Ítalíu og settist þar að.

Ásta Sigurðardóttir ævintýrakona fór fyrir fáeinum árum til Sikileyjar til að skoða einnar evru hús, en endaði á því að kaupa sér ekki hús á eina evru. Enda sá hún fram á að það yrði á endanum dýrara og tímafrekara að gera einnar evru hús íbúðarhæft, heldur en að kaupa dýrari eign. Sem hún gerði og hefur nú gert upp stórt hús í hjarta Salemi, sem er fjallaþorp á miðri Sikiley.

Lóa Pind Aldísardóttir heimsækir hana til Sikileyjar í 1. þætti af sjöundu þáttaröð af Hvar er best að búa? sem hóf göngu sína á streymiveitunni Sýn+ í dag. Hann verður seinna sýndur í opinni dagskrá Sýnar. Í fyrsta þætti heimsækir hún einnig Kolbrúnu Dögg Eggertsdóttur sem féll fyrir ítölskum pilti þegar hún starfaði sem au-pair í London fyrir allmörgum árum. Það leiddi til þess að hún býr nú, ásamt fjölskyldu sinni, á einhverri krúttlegustu eyju Ítalíu, Ischiu, þar sem einungis um 60 þúsund manns búa árið um kring en fjöldi ferðamanna heimsækir á hverju ári.

Milli Njarðvíkur og Póllands

Í þáttaröðinni heimsækir Lóa alls konar fólk, m.a. unga frumkvöðla sem ákváðu að setjast að nálægt alþjóðaflugvöllum til að auðvelda ferðalög milli heimsálfa, kjarnafjölskyldu úr Hafnarfirði sem hafnaði íslenska lánakerfinu og eiga nú skuldlaust hús í spænskri sveit, körfuboltafjölskyldu sem hefur verið í fjarbúð milli ótal landa og deilir nú tíma sínum milli Njarðvíkur og Póllands, ungri konu sem stofnaði veislutertufyrirtæki í Köben og konu á miðjum aldri sem fann ástina í örmum Spánverja á Djúpavogi sem leiddi þau til Andalúsíu þar sem við fylgjumst með brúðkaupi þeirra. Og loks kynnumst við hjónum á besta aldri sem höfðu kjark til að setjast að í alræmdri stórborg í Nígeríu umkringd vopnuðum öryggisvörðum.

Í myndbandinu sem hér fylgir má sjá brot úr þættinum.

Klippa: Ástu leist ekki á einnar evru húsin

Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumenn eru Ívar Kristján Ívarsson og Hákon Pálsson, klippingu annaðist Magnús Ingvar Bjarnason hjá Obbosí. Framleitt af Lóu Production fyrir Sýn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.