Íslenski boltinn

Þróttur skellti KR í Reykjavíkurmótinu

Aron Guðmundsson skrifar
Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar.
Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar. Vísir/Diego

Þróttur Reykjavík gerði sér lítið fyrir og skellti KR 5-1 í leik liðanna í Reykjavíkurmóti karla í fótbolta á KR-vellinum í dag.

Þróttarar, sem háðu harða baráttu um að komast upp í Bestu deildina á síðasta tímabili en náðu ekki því takmarki sínu, höfðu byrjað Reykjavíkurmótið af krafti með 3-1 sigri gegn Val og í dag hélt sigurganga liðsins í mótinu áfram. 

KR hafði á sama tíma lagt Fylki að velli en þurftu í dag að sætta sig við tap á móti sprækum Þrótturum.

Tryggvi Snær Geirsson kom Þrótturum yfir í leik dagsins með marki á 19.mínútu og áður en fyrri hálfleikur rann sitt skeið tókst Adam Árna Róbertssyni að tvöfalda forystu gestanna úr Laugardalnum. Aron Snær Ingason bætti við þriðja marki Þróttara á 55.mínútu áður en að KR-ingar skoruðu sjálfsmark og var staðan því orðin 4-0 Þrótturum í vil.

Róberti Elís Hlynssyni tókst að klóra í bakkann fyrir heimamenn á 75.mínútu en Eiríkur Þorsteinn Blöndal svaraði því með því að kóróna flottan leik Þróttara með fimmta marki liðsins og þar með innsigla 5-1 sigur.

Sigurinn sér til þess að Þróttur Reykajvík er á toppi B-riðils Reykjavíkurmótsins með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×