Körfubolti

Segir ekkert til í því að Justin James sé á leið á Krókinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Justin James verður ekki samherji Sigtryggs Arnars Björnssonar hjá Tindastóli.
Justin James verður ekki samherji Sigtryggs Arnars Björnssonar hjá Tindastóli. vísir/diego

Formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir ekkert til í orðrómi þess efnis að Justin James sé á leið til liðsins, þrátt fyrir ummæli þjálfara Álftaness þar að lútandi.

Flökkusaga um að James myndi klára tímabilið með Stólunum fór á flug fyrir nokkrum dögum og í viðtali við Vísi eftir tap Álftaness fyrir Grindavík í gær, 83-79, sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari liðsins, að James væri á leið á Krókinn. James lék með Álftanesi seinni hluta síðasta tímabils.

„Hann lét okkur vita að Tindastóll væri að tala við sig og ég held að hann sé að fara í Tindastól,“ sagði Hjalti aðspurður hvort James væri á leið til Álftaness.

Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, kvað orðróminn um James í kútinn í samtali við Vísi í dag.

„Hann er ekki að koma hingað. Ég veit ekki alveg hvernig þetta hefur farið af stað,“ sagði Dagur og bætti við að Stólarnir myndu klára tímabilið með núverandi leikmannahópi.

„Við erum með mjög gott lið og höfum engar áhyggjur af því. Hann er ekki á leiðinni á Krókinn,“ sagði Dagur.

Rætt var um ummæli Hjalta um James í Bónus Körfuboltakvöldi í gær. Burtséð frá sanngildinu höfðu sérfræðingarnir Sævar Sævarsson og Hlynur Bæringsson gaman af útspili Hjalta.

„Ég held að þetta hafi sennilega aldrei gerst í sögu íþrótta á Íslandi þar sem einn þjálfari í liði tilkynnir að leikmaður sé á leiðinni í annað lið. Þetta er stórmerkilegt,“ sagði Sævar.

„Það var enginn að spá í neinu svona fyrir x mörgum árum. Það er alltaf eitthvað að gerast í þessari deild, hvort sem það er eitthvað vit í því eða ekki. Ég verð að viðurkenna að þetta gladdi mig,“ sagði Hlynur.

Klippa: Bónus körfuboltakvöld - umræða um Justin James

James lék sautján leiki með Álftanesi í deildar- og úrslitakeppni á síðasta tímabili. Í þeim var hann með 23,5 stig, 6,3 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali.

Tindastóll, sem sigraði ÍR á fimmtudaginn, 101-90, er í 2. sæti Bónus deildarinnar með tuttugu stig, sex stigum á eftir toppliði Grindavíkur.

Umræðuna úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×