Skoðun

Steinunni í 2. sæti

Bjarki Bragason skrifar

Ég styð Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur í 2. sæti í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna þess að hún stendur fyrir jöfnuð, mannréttindi og þá yfirvegun, þrautseigju og vinnusemi sem samfélag á breytingatímum þarfnast. Við þurfum kjörna fulltrúa sem vinna að jöfnuði.

Í garðinum fyrir utan gluggann minn hefur regnbogafáni blakt á sinni stöng síðan í sumar og í hvert skipti sem ég sé hann skynja ég hann sem yfirlýsingu um mannréttindi og að hér sé rými til að vera. Á síðustu vikum hefur fáninn tvisvar verið eyðilagður.

Eyðilegging fánans er ekki tilviljun. Hún er skýr skilaboð, jafnvel þótt þau séu send án orða og ef til vill ekki af einlægu hatri. Hvernig tekið er á móti skilaboðunum er hinsvegar óútreiknanlegt og getur verið lífshættulegt. Það er verið að sá í jarðveg með þeirri von að þyrnar vaxi. Öll munu skera sig á þeim.

Ég velti fyrir mér hvað geri þetta mögulegt. Hvaða línur séu að færast til, hvaða leyfi hafa verið gefin fyrir þeirri beinskeyttu ógn sem býr í aðgerðinni. Sem hinsegin manneskja er ég hugsi yfir því hvert samfélagið stefnir. Misskipting og fátækt skapa jarðveg fyrir einfaldar skýringar og harðar lausnir sem yfirleitt takmarka réttindi jaðarsettra hópa og tala fyrir einsleitni og ímynduðu normi sem gjarnan er sótt í túlkanir á liðnum tímum, yfirleitt af einstaklingum í forréttindastöðu.

Réttindi hinsegin fólks eru ekki einangruð né án tengsla. Þau fara hönd í hönd við kvenréttindi, inngildingu, aðgengi að menningu og félagslegt réttlæti. Að vinna að þessum málum snýst ekki aðeins um yfirlýsingar heldur um vinnu sem hefur bein áhrif á líf borgarbúa.

Ég styð Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur vegna þess að hún hefur helgað störf sín þessari tegund vinnu. Hún var framkvæmdastjóri UN Women, talskona Stígamóta og í dag starfar hún sem ráðgjafi í stefnumótun og samkiptum fyrir ríki, sveitarfélög og fyrirtæki. Hún hefur sýn og reynslu, vinnubrögð hennar einkennast af áræðni, húmor og hlýju. Steinunni þekki ég af verkum hennar, af samvinnu og sem vin. Steinunn hlustar og hefur opið viðhorf en sterkar skoðanir.

Reykjavík er borg í stöðugri mótun. Hún er bæði hið byggða og hið upplifaða rými sem við hrærumst í og mótar okkur. Borg verður aldrei tilbúin. En ákvarðanir og forsendur þeirra sem taka þær núna munu hafa áhrif langt fram í tímann. Það þarf að horfast í augu við þau mál sem ekki hafa gengið vel og það þarf skýr markmið og getu til að vinna að þeim. Til þess þarf fólk sem skilur samfélag og mannlíf, getur tekist á við togstreitu og stuðlað að samvinnu.

Með allt þetta í huga tel ég þörf á Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur í borgarstjórn Reykjavíkur og hvet þau sem taka þátt í forvali Samfylkingarinnar 24. janúar til að veita henni stuðning sinn í 2. sæti.

Höfundur er myndlistarmaður og deildarforseti Myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×